Nóbelsnefnd að liðast í sundur

Sara Danius tilkynnti um afsögn sína í gær.
Sara Danius tilkynnti um afsögn sína í gær. AFP

Sara Danius sem sagt sig frá störfum Sænsku akademíunnar, sem frá 1901 hefur ár hvert veitt Nóbelsverðlaun í bókmenntum, en hún hefur gegnt formennsku í akademíunni  frá því í ársbyrjun 2015. Ástæðan er hvernig akademían hefur tekið á ásökunum tengdu kynferðislegu ofbeldi.

Akademían hefur verið harðlega gagnrýnd fyrir hvernig tekið hefur verið á ásökunum um kynferðislegt ofbeldi af hálfu eiginmanns Katarina Frostenson en hún situr í nefndinni. Danius er ein þeirra sem vildi að Frostenson færi úr nefndinni.

„Þetta hefur þegar haft alvarleg áhrif á Nóbelsverðlaunin og það er alvarlegt vandamál,“ sagði Danius þegar hún tilkynnti um afsögn sína. Maðurinn neitar aftur á móti öllum ásökunum á hendur honum.

Sara Danius segir að það hafi verið ósk akademíunnar að hún léti af störfum ritara nefndarinnar. Hún hafi því ákveðið að stíga til hliðar og afsögnin taki strax gildi.

Í grein Silju Bjarkar Huldudóttur í Morgunblaðinu fyrr í vikunni er farið yfir málið en ástæðu upplausnarástandsins má rekja til þess að í nóvember á síðasta ári greindi sænska dagblaðið Dagens Nyheter frá því að 18 konur hefðu sakað Jean-Claude Arnault, sem verið hefur mjög áhrifamikill í sænsku bókmenntalífi um árabil, um kynferðislega áreitni og áttu sum brotanna að hafa verið framin í íbúð í eigu akademíunnar.

Arnault er giftur skáldkonunni Katarinu Frostenson (valin inn í akademíuna 1992). Þau hjónin hafa um langt árabil rekið bókmenntaklúbbinn Forum, sem þau eiga, og notið góðs af fjárframlögum frá akademíunni.

Tveimur dögum eftir að lögreglan hóf rannsókn á ásökunum kvennanna í desember sleit Sænska akademían öll tengsl sín við Arnault. Sara Danius (valin 2013), sem fyrst kvenna tók við stöðunni sem ritari Sænsku akademíunnar 2015, fordæmdi háttalag Arnault og ákvað akademían í framhaldinu að ráða lögfræðistofuna Hammarskiöld & Co til að rannsaka tengsl Arnault við alla meðlimi akademíunnar.

Samkvæmt úttekt lögfræðistofunnar, sem Dagens Nyheter komst yfir, á Arnault ítrekað að hafa lekið nafni komandi Nóbelsverðlaunaskálds og á þetta við um vinningshafana Wislawa Szymborska (1996), Elfriede Jelinek (2004), Harold Pinter (2005), Jean-Marie Gustave Le Clézio (2008), Patrick Modiano (2014), Svetlana Aleksijevitj (2015) og Bob Dylan (2016). Vegna leka lögfræðiálitsins til Dagens Nyheter er Horace Engdahl (valinn inn 1997) æfur út í Danius og lýsir henni í fjölmiðlum sem verstum ritara og talsmanni akademíunnar síðan til hennar var stofnað 1786.

Um helgina greindi Svenska Dagbladet (SvD) frá því að lögfræðistofan mælti með því að akademían kærði forsvarsmann bókmenntaklúbbsins Forum til lögreglunnar vegna upplýsingaleka og óeðlilegra fjárhagstengsla gegnum Frostenson, en akademían hefur valið að fara ekki að ráðum lögfræðinganna. Í framhaldinu var krafist atkvæðagreiðslu (sem ávallt eru leynilegar) innan akademíunnar um veru Frostenson og var niðurstaðan sú að Englund, Östergren, Espmark og Per Wästberg (valinn 1997) ásamt tveimur öðrum ónafngreindum meðlimum akademíunnar vildu láta reka Frostenson úr akademíunni, en átta meðlimir lögðust gegn brottvísun. Þetta eru þau Sture Allén (1980), Göran Malmqvist (1985), Horace Engdahl (1997), Bo Ralph (1999), Kristina Lugn (2006), Anders Olsson (2008), Tomas Riad (2011) og Jayne Svenungsson (2017).

Á mánudag ákváðu þrír meðlimir akademíunnar, þeir Peter Englund, Klas Östergren og Kjell Espmark, að hætta störfum fyrir Sænsku akademíuna undir lok síðustu viku í kjölfarið á miklum átakafundi innan akademíunnar. Jafnframt hefur Sara Stridsberg (sem valin var inn í akademíuna 2016) upplýst að hún íhugi að hætta.

Til marks um alvarleika krísunnar sem Sænska akademían stendur frammi fyrir má nefna að Danius fundaði með Karli XVI. Gústafi Svíakonungi á sunnudag, en það var Gústaf III. sem stofnaði Sænsku akademíuna 1786. Eftir fundinn sagðist Svíakonungur, í viðtali við sænska fjölmiðla, binda vonir við að hægt yrði að finna farsæla lausn á málinu, enda um mikilvæga stofnun að ræða. Sagði hann að honum væri haldið upplýstum um stöðu mála.

SVT

mbl.is