ESB styður árás vesturveldanna

Donald Tusk.
Donald Tusk. AFP

Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins, tilkynnti nú í morgun að Evrópusambandið styddi við hernaðaraðgerðir Bandaríkjanna, Bretlands og Frakklands í sýrlensku borgunum Homs og Damaskus í nótt. 

Árásirnar voru svar við efnavopnaárás, sem gerð var í borginni Douma í Sýrlandi um síðustu helgi, sem beindist gegn almennum borgurum.

„Árásir Bandaríkjanna, Frakklands og Bretlands senda sterk skilaboð um að ríkisstjórn Sýrlands, með stuðningi Rússa og Írana, getur ekki haldið þessum mannlega harmleik áfram, a.m.k. ekki án þess að þurfa að gjalda fyrir það. ESB mun standa með bandamönnum sínum í þessu réttlætismáli,“ sagði Tusk í Twitter-færslu sinni.

Verður að vera síðasta skiptið

Jean-Claude Juncker, formaður framkvæmdastjórnar ESB, sagði að þetta hefði ekki verið í fyrsta sinn sem Sýrlandsstjórn hefði beitt efnavopnum gegn óbreyttum borgurum. „En þetta yrði að verða síðasta skiptið sem það gerðist.“

„Alþjóðasamfélagið er ábyrgt fyrir því að draga þá til ábyrgðar sem beita efnavopnum,“ sagði Juncker. 

Jean-Claude Juncker.
Jean-Claude Juncker. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert