Alþjóðasamfélagið bregst við árásunum í Sýrlandi

Sergei Rudskoi, yfirmaður herafla Rússlands, fyrir framan kort sem sýnir …
Sergei Rudskoi, yfirmaður herafla Rússlands, fyrir framan kort sem sýnir hvar árásir vesturveldanna voru gerðar í nótt. AFP

Viðbrögð alþjóðasamfélagsins við loftárásum vesturveldanna á borgirnar Damaskus og Homs í Sýrlandi í nótt eru á ýmsa vegu. Á meðan tyrknesk stjórnvöld segja árásina „viðeigandi viðbrögð“ fordæma Rússar hana og segja hana hafa „tortímandi áhrif“ á öll alþjóðasamskipti.

„Við fögnum þessari aðgerð. Hún sefar samvisku almennings í kjölfar árásarinnar í Douma, sem flesta grunar að hafi verið á vegum Sýrlandsstjórnar,“ segir í yfirlýsingu sem utanríkisráðuneyti Tyrklands sendi frá sér rétt í þessu. Í yfirlýsingunni segir að sýrlenska ríkisstjórnin hafi ofsótt eigin borgara á margvíslegan hátt í meira en sjö ár. „Sannað er að stjórnin hefur framið bæði glæpi gegn mannkyni og stríðsglæpi,“ segir í yfirlýsingu tyrkneska utanríkisráðuneytisins.

„Þetta eru glæpamenn“

Ayatollah Ali Khamenei, æðsti leiðtogi Írans, fordæmir þau Donald Trump Bandaríkjaforseta, Emmanuel Macron, forseta Frakklands, og Theresu May, forsætisráðherra Bretlands, fyrir verknaðinn. „Árásin gegn Sýrlandi er glæpur,“ segir Khameini í færslu á samfélagsmiðlinum Telegram. „Bandaríkjaforseti, Frakklandsforseti og forsætisráðherra Bretlands eru glæpamenn,“ segir í færslunni.

Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, lýsti yfir stuðningi við loftárásirnar. „Kanada styður þá ákvörðun sem tekin var af Bandaríkjunum, Bretlandi og Frakklandi í því skyni að minnka líkurnar á því að ríkisstjórn Assads beiti efnavopnum gegn eigin þjóð,“ segir í yfirlýsingu Trudeaus.

Krefjast neyðarfundar Öryggisráðs SÞ

Rússnesk stjórnvöld fordæmdu árásina harðlega í yfirlýsingu í morgun. Þar segir að her Rússlands hafi unnið með réttkjörnum yfirvöldum í Sýrlandi að því að brjóta á bak aftur starfsemi hryðjuverkahópa í landinu.

Þar segir enn fremur að Rússar muni fara fram á neyðarfund Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna vegna árásarinnar. „Án heimildar Öryggisráðsins og í trássi við alþjóðalög var ráðist á fullvalda ríki,“ segir í yfirlýsingu rússneskra stjórnvalda. „Þessi árás hefur tortímandi áhrif á öll alþjóðasamskipti,“ segir þar.

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, á blaðamannafundi í morgun sem haldinn …
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, á blaðamannafundi í morgun sem haldinn var vegna árásanna í nótt. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert