Fá Pulitzer fyrir að afhjúpa Weinstein

Umfjöllun The New York Times og New Yorker um kynferðisofbeldi …
Umfjöllun The New York Times og New Yorker um kynferðisofbeldi og kynferðislega áreitni í Hollywood skiluðu miðlunum Pulitzer-verðlaunum í flokki almannaþjónustu í dag. Miðlarnir greindu m.a. frá ótal ásökunum á hendur kvikmyndaframleiðandanum Harvey Weinstein. AFP

The New York Times og tímaritið New Yorker fengu í dag Pulitzer-verðlaunin í blaðamennsku í flokki almannaþjónustu fyrir umfjöllun sína um kynferðislega áreitni og ásakanir um kynferðisofbeldi í Hollywood.

Umfjöllun miðlanna varð kveikjan að #MeToo-byltingunni og meðal fyrstu umfjallana miðlanna í október á síðasta ári voru frásagnir um al­var­leg og ít­rekuð kyn­ferðis­brot fréttaþularins Bill O´Reilly og kvik­mynda­fram­leiðand­ans Har­veys Wein­stein.  

Meira en hundrað kon­ur hafa nú ásakað Wein­stein um að brjóta gegn sér. Ásak­an­irn­ar bundu endi á fer­il hans í kvik­mynda­geir­an­um og hef­ur fram­leiðslu­fyr­ir­tæki hans nú farið fram á gjaldþrota­skipti. Þrýst­ing­ur um að sækja hann til saka vegna brotanna hefur stigmagnast og hefur sak­sókn­ari í Man­hatt­an verið harðlega gagn­rýnd­ur fyr­ir að ákæra hann ekki vegna mála sem komust upp fyr­ir þrem­ur árum. Yf­ir­völd hafa lofað að skoða hvað fór úr­skeiðis við rann­sókn­ina á þeim tíma.

The New York Times hlaut einnig verðlaun, ásamt The Washington Post, fyrir umfjöllun um meint afskipti Rússa af forsetakosningunum í Bandaríkjunum árið 2016.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert