Bólusettu fimm milljón börn gegn lömunarveiki

Ungu barni eru hér gefnir bólusetningadropar gegn lömunarveiki. Mynd úr …
Ungu barni eru hér gefnir bólusetningadropar gegn lömunarveiki. Mynd úr safni. AFP

Rúmlega fimm milljón börn í Níger voru bólusett gegn lömunarveiki  í síðasta mánuði. Segir í yfirlýsingu frá Sameinuðu þjóðunum um málið að bólusetningarfjöldinn hafi farið fram úr áætlun. Aukninguna megi hins vegar rekja til þess að átakið var einnig látið ná til barna í flóttamannabúðum, sem flúið höfðu uppreisnarsveitir Boko Haram í nágrannríkinu Nígeríu.

Alls voru 5.317.453 börn undir fimm ára aldri bólusett gegn lömunarveiki, að því er fram kemur í yfirlýsingu OCHA, Sam­ræm­ing­ar­skrif­stofu Sam­einuðu þjóðanna í mannúðar­mál­um. Upphafleg áætlun gerði ráð fyrir bólusetningu 4,5 milljón barna.

Þá voru tæplega 42.000 börn í flóttamannabúðum  á landamærum Nígeríu, Níger, Chad og Kamerún, einnig bólusett.

Lömunarveiki er bráðsmitandi veirusjúkdómur sem getur leitt til varanlegrar lömunar og sem leggst hvað verst á ung börn. Engin lækning er við lömunarveiki og eina vörnin gegn sjúkdóminum felst í bólusetningu.

Nelson Mandela, fyrrverandi forseti Suður-Afríku, hrinti af stað herferð gegn lömunarveiki í Afríku fyrir 20 árum síðan. Á þeim tíma greindist lömunarveiki reglulega í ríkjum álfunar og rúmlega 75.000 börn lömuðust árlega af völdum veikinnar samkvæmt upplýsingum Sameinuðu þjóðanna.

mbl.is