Leiðtogafundur Trumps og Jong-un nálgast

Stjórnvöld í Bandaríkjunum hafa átt í milliliðalausum viðræðum við stjórnvöld í Norður-Kóreu um leiðtogafund ríkjanna. Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, segir að fundurinn muni líklega eiga sér stað í júní og ef til vill fyrr. Fimm fundarstaðir koma til greina að sögn forsetans.

Trump ávarpaði blaðamenn í tilefni af opinberri heimsókn Shinzo Abe, forsætisráðherra Japans, til Bandaríkjanna. Abe sagði forsetann sýna mikið hugrekki í að samþykkja að eiga fund með leiðtoga Norður-Kóreu.

Yfirvöld í Japan hafa lýst yfir áhyggjum þess efnis að aukin samskipti Norður-Kóreu og Bandaríkjanna geti grafið undan stöðu Japans sem lykilbandamanni Bandaríkjanna og nágranna Norður-Kóreu.

Kjarnorkuvopnaáætlun Norður-Kóreu verður meðal annars tekin til umræðu á fundi leiðtoganna en emb­ætt­is­menn í Norður-Kóreu hafa tjáð banda­rísk­um koll­eg­um sín­um að Kim Jong-un sé til­bú­inn að ræða það að hann láti af kjarn­orku­vopna­áætl­un sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert