„Mjög líklegt“ að átt hafi verið við sönnunargögn

Sérfræðingar alþjóðlegrar stofnunar gegn notkun efnavopna (OPCW) eru á leið …
Sérfræðingar alþjóðlegrar stofnunar gegn notkun efnavopna (OPCW) eru á leið til Douma. AFP

Franska ríkisstjórnin telur mjög miklar líkur á því að sönnunargögn eigi eftir að hverfa af vettvangi efnavopnaárásarinnar í Douma í nágrenni Damaskus í Sýrlandi áður en að sérfræðingar alþjóðlegrar stofnunar um bann við efnavopnum (OPCW) komist þangað til að sinna rannsóknum og safna gögnum.

Rússar og Sýrlandsstjórn sögðu í dag að eftirlitsteymi stofnunarinnar fengi að komast til Douma á morgun, miðvikudag. Sögðu þau enn ekki óhætt að fara þangað, t.d. þyrfti að hreinsa jarðsprengjur af vegum. 

„Það er mjög líklegt að sönnunargögn og lykilgögn muni hverfa af vettvangi sem er alfarið undir yfirráðum rússneskra og sýrlenskra herja,“ segir utanríkisráðherra Frakklands. Tók hann þar með undir áhyggjur Bandaríkjamanna.

Rússar hafa hafnað þessum ósökunum og segjast hvorki ætla að hindra för teymisins né eiga við vettvang árásarinnar. Þeir segjast reyndar efast um að árás hafi verið gerð heldur hafi verið um sviðsetningu að ræða. 

Fréttir af efnavopnaárás í Douma bárust þann 7. apríl og hafa sjónarvottar lýst mikilli skelfingu er íbúarnir reyndu að leita skjóls eftir  árásina sem þeir sögðu hafa verið gerða úr lofti. Talið er að um fjörutíu manns hafi farist.

Hjálparsamtökin Hvítu hjálmarnir, sem hafa sinnt leit, björgun og fleiri verkefnum í stríðinu í Sýrlandi eru meðal þeirra sem birt hafa myndir af vettvangi. Á þeim mátti m.a. sjá börn sem ekki náðu andanum og lík barna.

Bandaríkjamenn, Frakkar og Bretar gerðu loftárásir á hernaðarleg skotmörk í nágrenni Damaskus í kjölfar efnavopnaárásarinnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert