„Ég ruglast ekki í ríminu“

Nikki Haley, sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum.
Nikki Haley, sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum. AFP

„Með fullri virðingu, ég ruglast ekki í ríminu,“ sagði Nikki Haley, sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum, í samtali við bandarísku sjónvarpsstöðina Fox þar sem hún svaraði ummælum ráðgjafa í Hvíta húsinu þess efnis að hún hefði ruglast tímabundið þegar hún sagði á sunnudaginn að Bandaríkjastjórn væri að undirbúa frekari refsiaðgerðir gegn rússneskum fyrirtækjum vegna efnavopnaárásarinnar í Sýrlandi.

Fjallað er um málið á fréttavef breska ríkisútvarpsins BBC en ráðgjafinn, Larry Kudlow, sagði engar slíkar ákvarðanir hafa enn verið teknar. Haley sagði að fyrirhugaðar refsiaðgerðir myndu beinast að hverju því fyrirtæki í Rússlandi sem seldi stjórnvöldum í Sýrlandi búnað sem gerði þeim kleift að beita efnavopnum. Hún agði ennfremur að aðgerðirnar myndu senda öflug skilaboð til rússneskra ráðamanna.

Bandarískir fjölmiðlar hafa greint frá því að yfirlýsing Haleys hafi ekki fallið í góðan jarðveg hjá Donald Trump Bandaríkjaforseta. Í kjölfarið féllu ummæli Kudlows sem sagði að frekari aðgerðir væru í skoðun en engar ákvarðanir hefðu verið teknar. Gerði hann sem fyrr segir að því skóna að Haley hefði líklega ruglað þessu tvennu saman.

Kudlow hefur í kjölfar síðari ummæla Haleys sagt að hann hefði ekki átt að orða hlutina með þessum hætti. Staðreyndin væri sú að Haley hefði verið að fylgja því sem hún hafi haldið að væri stefna bandarískra stjórnvalda en í millitíðinni hefði stefnan breyst. Henni hafi hins vegar ekki verið greint frá því. Hún hafi því ekki vitað betur.

Stjórnmálaskýrendur segja hins vegar að þessi samskipti varpi ljósi á ágreining í starfsliði Trumps samkvæmt frétt BBC, en Haley sé álitin einn helsti sérfræðingurinn innan þess í utanríkismálum. Einkum í kjölfar þess að Rex Tillerson var látinn taka pokann sinn sem utanríkisráðherra fyrr á þessu ári.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert