Hrikalegar lýsingar á flugatviki

Kristopher Johnson, farþegi um borð, tók þessa mynd.
Kristopher Johnson, farþegi um borð, tók þessa mynd. AFP

Kona á fimmtugsaldri lést þegar sprenging varð í hreyfli farþegaþotu Southwest Airlines sem var á leið frá New York til Dallas í gær. Þetta er fyrsta mannskæða farþegaflugið í bandarískri lofthelgi í tæpan áratug.

Flugtak farþegaþotunnar, Boeing 737-700, var með eðlilegum hætti en aðeins nokkrum mínútum síðar heyrðu farþegar háværa sprengingu í vinstri hreyfli. Flísar úr hreyflinum brutu rúðu í farþegarými vélarinnar og féllu súrefnisgrímur niður, að sögn vitna.

„Við teljum að flísar úr hreyflinum hafi valdið atvikinu,“ segir Robert Sumwalt, yfirmaður flugslysanefndar í Bandaríkjunum (National Transportation Safety Board). Hann segir að enginn eldur hafi kviknað við sprenginguna heldur hafi bilun orsakað hana. Hann staðfestir að ein manneskja hafi látist.

Konan sem lést hét Jennifer Riordan en hún var 43 ára gömul og tveggja barna móðir í  Albuquerque í Nýju-Mexíkó.

Stjórnendur Southwest Airlines segja að 144 farþegar og fimm manna áhöfn hafi verið um borð í fluginu á milli LaGuardia-flugvallarins í New York á leið til Dallas Love Field. Vélinni var lent á alþjóðaflugvellinum í Philadelphia klukkan 11:20 að staðartíma, klukkan 15:20 að íslenskum tíma. 

Riordan var aðstoðarframkvæmdastjóri samskiptamála hjá Wells Fargo-bankanum og margir minnast hennar á samskiptamiðlum. Þar á meðal borgarstjórinn í Albuquerque, Tim Keller.

Bandarískir fjölmiðlar greina frá því að sjö farþegar hafi hlotið minni háttar áverka við atvikið. 

NBC News birti í gærkvöldi upptöku þar sem heyra má samskipti milli flugumferðarstjóra í Philadelphia og flugmannsins. Óhætt er að segja að þau séu dramatísk en farþegar um borð í þotunni segja að ástandið um borð hafi verið skelfilegt. 

Myndskeið frá farþega um borð

Í samskiptum milli flugmannsins og flugumferðarstjórnar heyrist þegar flugmaðurinn óskar eftir því að sjúkralið verði við flugbrautina og þegar flugumferðarstjórinn spyr hvort eldur sé laus um borð: „Nei það er ekki kviknað í vélinni en það vantar hluta hennar. Þeir segja að það sé gat og eitthvað hafi farið út...“

Marty Martinez, sem var farþegi í þotunni, skrifaði um atvikið á Facebook þar sem hann segir í beinu streymi: „Það er eitthvað að flugvélinni okkar! Það er eins og við hröpum.“ 

„Hreyfillinn sprakk og rúðan þremur sætaröðum frá mér brotnaði. Kona slasaðist alvarlega í sprengingunni en hún sat við hlið gluggans,“ skrifar hann.

Southwest Airlines-þotan á flugvellinum í Philadelphia.
Southwest Airlines-þotan á flugvellinum í Philadelphia. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert