3.000 virkar sprengjur í Berlín

Byggingarsvæðið í Berlín þar sem sprengjan fannst í morgun.
Byggingarsvæðið í Berlín þar sem sprengjan fannst í morgun. AFP

Talið er að enn sé að finna um þrjú þúsund virkar sprengjur í Berlín, höfuðborg Þýskalands, frá árum síðari heimsstyrjaldarinnar rúmum 70 árum eftir að stríðinu lauk. Slíkar sprengjur hafa reglulega fundist á undanförnum áratugum í borginni og fannst ein slík í morgun í nágrenni aðalbrautastöðvar hennar.

Fram kemur í frétt AFP að sprengjan, sem er bresk að uppruna og 500 kíló að þyngd, hafi fundist við byggingaframkvæmdir skammt frá aðalbrautarstöðinni. Hátalarar hafi verið notaðir til þess að rýma svæði í tæplega kílómeters radíus í kringum staðinn þar sem sprengjan fannst. Þá hafa almenningssamgöngur á svæðinu að sama skapi verið stöðvaðar á meðan lögreglan tekst á við málið.

Mörg þúsund íbúa þurfa í kjölfarið að halda sig frá heimilum sínum og starfsmenn frá starfsstöðvum sínum þar til lögreglan afléttir rýmingunni og enn fleiri hafa þurft að nota aðrar leiðir til þess að komast leiðar sinnar en almenningssamgöngur sem fara um svæðið. Lögreglan hefur farið hús úr húsi til þess að kanna hvort þau eru mannlaus áður en sprengjan verður aftengd.

Miklar loftárásir voru gerðar á Berlín í heimsstyrjöldinni sem og fleiri þýskar borgir. Rifjað er upp í fréttinni að í september hafi 60 þúsund manns þurft að yfirgefa heimili sín í Frankfurt eftir að virk bresk sprengja, sem var 1,8 tonn á þyngd, fannst í borginni.

Ekki liggur fyrir hvað það kann að taka langan tíma að gera sprengjuna óvirka og fjarlægja hana. Haft er eftir talsmanni lögreglunnar að það fari eftir því hversu langan tíma taki að rýma svæðið og í hvaða ástandi sprengjan er.

Lögreglumenn á vettvangi í morgun.
Lögreglumenn á vettvangi í morgun. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert