Demókratar kæra framboð Trumps, rússnesk stjórnvöld og Wikileaks

Demókrataflokkurinn hefur höfðað mál gegn framboði Donalds Trumps Bandaríkjaforseta, rússneskum ...
Demókrataflokkurinn hefur höfðað mál gegn framboði Donalds Trumps Bandaríkjaforseta, rússneskum stjórnvöldum og Wikileaks vegna meints samsæris um að hafa áhrif á úrslit forsetakosninganna árið 2016. AFP

Landsnefnd Demókrataflokksins hefur höfðað mál gegn rússneskum stjórnvöldum, stjórnendum kosningaherferðar Donalds Trumps og WikiLeaks vegna meints samsæris um að hafa áhrif á úrslit forsetakosninganna í Bandaríkjunum árið 2016, Repúblikönum í hag.

Alríkisdómstóll á Manhattan tók kæru flokksins fyrir í dag. Landsnefndin heldur því fram að stjórnvöld í Rússlandi hafi upplýst starfsmenn kosningaherferðar Trumps um tölvuárás á landsnefnd Demókrataflokksins sem leiddi til þess að upplýsingar um Hillary Clinton komu fram sem höfðu skaðleg áhrif á framboð hennar.

Í kærunni, sem er 66 blaðsíður að lengd, kemur fram að náinn ráðgjafi Trumps, Roger Stone, virðist hafa búið yfir „fyrirfram þekkingu“ um áætlanir WikiLeaks um að dreifa skaðlegum upplýsingum um framboð Demókrata í forsetakosningunum. „Kosningaherferð Trumps og fulltrúar hennar tóku aðstoð Rússa fagnandi,“ segir meðal annars í kærunni.

Meðal þeirra sem kæran beinist að eru Donald Trump yngri sonur forsetans, Jared Kushner tengdasonur forsetans, Paul Manafort fyrrverandi kosningastjóri Trumps, leyniþjónusta rússneska hersins (GRU) og Julian Assange stofnandi Wikileaks.

„Í aðdraganda forsetakosninganna 2016 gerðu Rússar allsherjarárás á lýðræði okkar og fundu þeir viljugan samstarfsaðila í framboði Donalds Trumps,“ segir Tom Perez, formaður landsnefndar Demókrataflokksins.

Landsnefndin fer fram á milljónir dollara í skaðabætur.

Tom Perez, formaður landsnefndar Demókrataflokksins.
Tom Perez, formaður landsnefndar Demókrataflokksins. AFP
mbl.is