Kona sem myrti tvífara sinn handtekin

Lois Riess (t.v.) vingaðist við Pamelu Hutchinson (t.h.) áður en …
Lois Riess (t.v.) vingaðist við Pamelu Hutchinson (t.h.) áður en hún myrti hana. Skjáskot/CBS

Bandaríska lögreglan hefur handtekið Lois Riess, konu á sextugsaldri, sem grunuð er um að hafa myrt eiginmann sinn og síðar konu sem líktist henni í því skyni að stela skilríkjum hennar að því er BBC greinir frá.

Riess hafði verið á flótta frá 23. mars þegar eiginmaður hennar David Riess fannst látinn á heimili þeirra í Minnesota. Hún var handtekinn á sumardvalarstað í suðuhluta Texas.

Talið er hins vegar að hún hafi áður lagt leið sína til Flórída þar sem hún hafi myrt hina 59 ára Pamelu Hutchinson, sem líktist henni í útliti. Hutchinson fannst látinn í Fort Myers Beach þann 9. apríl.

Segir í yfirlýsingu frá lögregluyfirvöldum í Minnesota að rannsakendur telji Hutchinson hafa verið myrta með sama skotvopni og David Riess.

Riess hefur áður ratað í vandræði vegna spilaskulda og var þekkt af yfirvöldum í Minnesota sem „Losing Streak Lois“ sem útleggja má sem Lois í lægðinni.

Telja rannsakendur hana hafa stolið allt að 11.000 dollurum úr fyrirtæki eiginmanns síns áður en hún myrti hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert