Gekk út í beinni útsendingu

Serzh Sargsyan, forsætisráðherra Armeníu, (t.v.) var ekki sáttur við Nikol …
Serzh Sargsyan, forsætisráðherra Armeníu, (t.v.) var ekki sáttur við Nikol Pashinyan, og gekk út af fundi þeirra sem var sýndur í beinni útsendingu. AFP

Viðræður á milli forsætisráðherra Armeníu og leiðtoga stjórnarandstöðunnar fóru út um þúfur, en tilgangurinn var að reyna binda enda á mótmæli stjórnarandstæðinga sem hafa staðið yfir dögum saman.  

Ráðherrann,  Serzh Sargsyan, gekk út af fundinum sem hann átti með Nikol Pashinyan sem var sýndur í beinni útsendingu. Fundurinn fór fram í höfuðborginni en ráðherrann fordæmdi það sem hann kallaði „fjárkúgun“ stjórnarandstöðunnar.

Þá hafa borist fregnir af því að að leiðtogi stjórnarandstöðunnar hafi verið handtekinn og átök hafi brotist út á milli stuðningsmanna hans og óeirðalögreglumanna.

Fram kemur á vef BBC, að Pashinyan vilji að Sargsyan segi af sér vegna stjórnarskrárbreytingar sem var gerð svo ráðherrann gæti enn verið við völd. 

Serzh Sargsyan er fyrrverandi forseti landsins og núverandi forsætisráðherra.
Serzh Sargsyan er fyrrverandi forseti landsins og núverandi forsætisráðherra. AFP

Með breytingunni jukust völd forsætisráðherrans töluvert, en Sargsyan, sem var áður forseti landsins, tók við embætti forsætisráðherra í síðustu viku eftir að hafa stigið til hliðar sem forseti eftir tvö kjörtímabil. 

Pashinyan sagði við stuðningsmenn sína í Jerevan, höfuðborg Armeníu, í gær að Sargsyan væri ekki að skilja þá breytingu sem væri að eiga sér stað í Armeníu. Hann stæði frammi fyrir „nýjum raunveruleika“.

Nikol Pashinyan, leiðtogi stjórnarandstöðunnar, segir að ráðherrann verði að segja …
Nikol Pashinyan, leiðtogi stjórnarandstöðunnar, segir að ráðherrann verði að segja af sér. Hann átti sig ekki á nýjum raunveruleika í Armeníu. Tímarnir séu að breytast. AFP

Nýr forseti landsins hvatti mennina til formlegra viðræðna og var ákveðið að halda fund í beinni útsendingu sem fór fram á hóteli í höfuðborginni. Fundurinn í dag var hins vegar mjög stuttur. Pashinyan sagði við ráðherrann: „Ég er kominn hingað til að ræða um afsögn þína.“

Sargsyan brást ókvæða við og sagði m.a. að þetta væri ekkert samtal „þetta er fjárkúgun“ og gekk síðan út. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert