Sautján látnir eftir drekabátaslys

Drekabátakapp er vinsælt víðsvegar í Asíu.
Drekabátakapp er vinsælt víðsvegar í Asíu. AFP

Sautján eru látnir eftir drekabátaslys í suðurhluta Kína, að því er talið vegna þungs straums. Einum þessara löngu mjóu báta hvolfdi með ræðurum innanborðs, auk þess sem öðrum bát sem kom þar að hvolfdi í kjölfarið. BBC greinir frá.

Alls lentu um 60 manns ofan í á í borginni Guilin meðan drekabátaæfingin stóð yfir. Um 200 björgunaraðilar eyddu nóttinni í að ná um 40 manns upp úr ánni.

Slysið átti sér stað þar sem tveir mismunandi straumar mætast í ánni og er hún mjög straumhörð á þeim stað. Fæstir þeirra sem lentu í ánni voru í björgunarvestum.

Drekabátaæfingin hafði verið skipulögð án vitneskju lögreglu og tveir skipuleggjendur voru handteknir.

Drekabátakapp er vinsælt víðsvegar í Asíu og Drekabátahátíðin er hefðbundinn frídagur í Kína þar sem keppt er í drekabátasiglingu víða um landið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert