Sprengiefni í íbúð í Ósló

Lögreglan í Ósló lokaði nokkrum götum í hverfinu þar sem …
Lögreglan í Ósló lokaði nokkrum götum í hverfinu þar sem meint sprengja fannst. Mynd úr safni. Ljósmynd/Norska lögreglan

Hálffertugur rússneskur ríkisborgari af tsjetsenskum uppruna var í gær úrskurðaður í tveggja vikna gæsluvarðhald með bréfa- og heimsóknabanni í Héraðsdómi Óslóar eftir að efni til sprengjugerðar og hlutur, sem sprengjusveit lögreglunnar í Ósló telur að sé sprengja, fundust í íbúð þar sem maðurinn var staddur.

Það var síðastliðið fimmtudagskvöld sem lögreglan lokaði nokkrum götum í Rosenhoff-hverfinu í Grünerløkka, nálægt miðbæ Óslóar, og kallaði til sprengjusveit og sprengjuleitarhund. Tilefnið var lögregluaðgerð sem hófst sem húsleit í íbúð þar sem sá grunaði hittist fyrir en að sögn Tore Barstad hjá lögreglunni í Ósló þróuðust málin þannig við húsleitina að ákveðið var að kalla til sprengjusveit.

Hinn handtekni sætti langri yfirheyrslu lögreglu á föstudaginn og eins og norska ríkisútvarpið NRK greinir frá ákvað lögregla á föstudagskvöldið að tilefni væri til að fara fram á gæsluvarðhaldsúrskurð í þágu rannsóknarinnar og er maðurinn grunaður um umfangsmikla handhöfn sprengiefna (n. grov befatning med eksplosiver).

Lokaði þinghaldi í miðjum klíðum

Mikill viðbúnaður var við héraðsdóm þegar lögregla leiddi hinn grunaða fyrir dómara og fór fram á gæsluvarðhaldsúrskurð. Héraðsdómari ákvað í miðjum klíðum að loka þinghaldinu og vísaði til hættu á því að sönnunargögn gætu spillst auk þess að grunaði nyti réttar til friðhelgi einkalífs. Dagblaðið VG greinir frá því að þann tíma sem blaðamenn þess voru í dómsalnum hafi maðurinn haft hettu á höfði og setið á gólfi salarins. Lögregla hafi að lokum farið með hann úr salnum áður en dómari kvað upp úrskurð sinn.

Lögregla hefur fram að þessu varist allra frétta af málinu og vill ekki tjá sig í smáatriðum um það sem fannst í íbúðinni. Christian Krohn Engeseth, aðgerðastjóri lögreglu á vettvangi, sagði þó við NRK að það sem sprengjusveitin fann kalli á nánari rannsókn og Grete Lien Metlid, sem stýrir rannsókninni, staðfestir að maðurinn hafi komið við sögu lögreglunnar áður og að við yfirheyrslur hafi komið fram atriði sem lögregla telji réttlæta gæsluvarðhald.

Sara Hambro, skipaður verjandi í málinu, segir í samtali við VG að maðurinn hafi skýrt mál sitt ítarlega fyrir lögreglu en hafi ekki enn sem komið er tekið afstöðu til þess hvort hann sé sekur eða saklaus.

Aðrar fréttir af málinu en þær sem hlekkjað er til í textanum:

Frá VG

Frá NRK

Frá Dagbladet

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert