12 ára stal kreditkorti og flaug til Balí

Bali er afar vinsæll áfangastaður ferðamanna. Hinn 12 ára gamli …
Bali er afar vinsæll áfangastaður ferðamanna. Hinn 12 ára gamli Drew flaug þangað einn frá Ástralíu án nokkurra hindrana. AFP

12 ára ástralskur drengur stal kreditkorti foreldra sinni eftir rifrildi, plataði ömmu sína til að láta sig fá passann sinn og flaug því næst einn til Balí.

Guardian segir móður drengsins, sem blaðið kallar Drew, hafa sagt honum að hann mætti ekki fara til Balí. Engu að síður tókst honum að bóka bæði hótel og flug, með því að skoða fyrst hvaða flugfélög leyfðu 12 ára börnum að fljúga án þess að vera í fylgd með fullorðnum.

Drew sagði fjölskyldu sinni að hann væri á leið í skólann, en fór þess í stað á rafmagnsvespu sinni að næstu lestarstöð í Sydney og tók þaðan lest á flugvöllinn. Þar tékkaði hann sig sjálfur inn og flaug til Perth í Ástralíu og þaðan áfram til indónesísku eyjunnar Balí.

Ástralska Nine Network-stöðin segir Drew aðeins hafa verið beðinn einu sinni um skilríki og að það hafi verið á flugvellinum í Perth.

„Þeir báðu um skólaskírteinið mitt og passann til að staðfesta að ég væri orðinn 12 ára,“ sagði Drew við Nine Network. „Það var frábært, af því að mig langaði í ævintýraferð.“

Eftir að hann kom til Balí innritaði hann sig á All Seasons-hótelið og sagði starfsfólki þar að hann væri að bíða eftir systur sinni.

Þegar að skóli Drews tilkynnti fjölskyldu hans að hann hefði ekki mætt í skólann hófst örvæntingarfull leit að honum. Eftir að upp komst að hann væri á Balí flaug móðir hans þangað til að sækja hann.

Hún segir Drew ekki sætta sig við orðið „nei“.

„Við vorum í áfalli og full andstyggðar, það er ekki hægt að lýsa því hvernig okkur leið þegar við komumst að því að hann hefði farið úr landi,“ sagði móðir Drew við Nine Network.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert