Madsen er „sjúklegur lygari“

Blaðamenn fyrir utan dómshúsið í Kaupmannahöfn í lok mars. Málið …
Blaðamenn fyrir utan dómshúsið í Kaupmannahöfn í lok mars. Málið verður lagt í dóm á miðvikudag. AFP

Geðlæknar sem gerðu mat á geðheilsu danska uppfinningamannsins Peter Madsen segja hann mjög ótrúverðugan. Hann sýni litlar tilfinningar nema þegar komi að eigin lífi og fyrrverandi eiginkonu sinni. „Ég held að ég hafi aldrei heyrt neitt jafnótrúverðugt í starfi mínu sem saksóknari,“ sagði Jacob Buch-Jepsen í dómssalnum í dag. Madsen er ákærður fyrir að hafa myrt sænsku blaðakonuna Kim Wall um borð í kafbáti sínum í ágúst í fyrra. Hann er sagður hafa sundurlimað líkið og kastað því fyrir borð og við réttarhöldin í dag sagði saksóknarinn að eina ástæða þess að hann hélt nærfötum Wall eftir í bátnum hafi verið sú að hann ætlaði að koma þeim sönnunargögnum fyrir í landi til að villa um fyrir lögreglunni.

„Hver lygin hefur rekið aðra og það styður geðmat algjörlega,“ sagði saksóknarinn við upphaf réttarhaldanna í morgun. Hann sagði málið í hnotskurn það að Madsen hafi myrt Wall. „Tveir fóru út á kafbátnum en einn kom til baka.“

Uppboð fór fram á myndum sem blaðakonan Kim Wall tók …
Uppboð fór fram á myndum sem blaðakonan Kim Wall tók á ferli sínum. Uppboðið fór fram í New York í lok mars. AFP

Buch-Jepsen benti á að Madsen hefði breytt framburði sínum eftir því sem fleiri sönnunargögn, m.a. líkamsleifar Wall, fundust. Hann segir mat geðlækna sýna að Madsen sé „sjúklegur lygari“ og að hann hafi viljað sjá hvað hann kæmist upp með. Þannig hafi hann sagt geðlæknunum að hann tæki þátt í réttarhöldunum af „einskærri forvitni“.

Saksóknarinn segir Madsen hafa sýnt vandvirkni er hann sundurlimaði lík Wall. Hann segir réttarmeinafræðinga telja líklegast að Madsen hafi skorið Wall á háls og drepið hana með þeim hætti. Madsen hefur viðurkennt að hafa sundurlimað lík blaðakonunnar en neitar hafa drepið hana. Hann segir hana hafa orðið fyrir slysi. Í tölvu Madsen hafa fundist myndbönd þar sem verið er að myrða konur, m.a. með því að skera þær á háls.

„Peter Madsen hélt að hann gæti gengið á vatni,“ sagði Buch-Jepsen við réttarhöldin í morgun. Hann segir að á líki Wall hafi fundist ummerki um að hún hefði verið bundin. Madsen hefur sagt að hún hafi dáið um klukkan 23 að kvöldi þess 10. ágúst en saksóknarinn sagði í morgun að svo gæti verið að hún hefði verið á lífi langt fram á nótt.

Peter Madsen mun samkvæmt dagskrá segja sitt síðasta í réttarhöldunum síðar í dag áður en málið verður lagt í dóm á miðvikudag. 

Bein lýsing Danska ríkisútvarpsins á því sem fram fer í réttarsalnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert