Madsen: Mér finnst þetta miður

Bettina Hald Engmark, verjandi Peter Madsen, á leið í dómssal …
Bettina Hald Engmark, verjandi Peter Madsen, á leið í dómssal í morgun. Réttarhöldum yfir Madsen lýkur á miðvikudag með dómsuppkvaðningu. AFP

„Mér finnst mjög, mjög leiðinlegt að þetta hafi gerst,“ voru lokaorð danska uppfinningamannsins Peter Madsen, við réttarhöldin yfir honum í dag.

Madsen, sem er ákærður fyr­ir að hafa myrt sænsku blaðakon­una Kim Wall um borð í kaf­báti sín­um í ág­úst í fyrra, horfði á foreldra Wall er hann lét orðin falla. Er Madsen m.a. ákærður fyrir að hafa sund­urlimað lík Wall og kastað því fyr­ir borð.

Dómur verður kveðinn upp í málinu á miðvikudag, en réttað hefur verið í málinu frá því 8. mars og hefur danska ríkisútvarpið DR, fylgst með réttarhöldunum. Geðlæknar tjáðu sig um andlegt ástand Madsen í morgun og sögðu hann sjúklegan lygara, sem sýni litl­ar til­finn­ing­ar nema þegar komi að eig­in lífi og fyrr­ver­andi eig­in­konu sinni.

Eftir hádegi var röðin hins vegar kominn að verjanda Madsen Betinu Hald Engmark, sem ítrekaði að dómstóllinn mætti ekki byggja niðurstöðu sína út frá óljósri tilfinningu.

Ekki sannað að Wall hafi verið myrt

Sagði Engmark dóminn verða að taka afstöðu til þess hvort Wall hafi verið myrt eða ekki, en slíkt hafi saksóknara ekki tekist að sýna fram á. Þá verði einnig að taka afstöðu til þess hvort um manndráp af gáleysi eða viljaverk hafi verið að ræða.

Enn fremur verði dómstóllinn að leggja mat á það hvort að Madsen hafi beitt Wall kynferðisofbeldi á meðan hún var á lífi. 

„Dómstóllinn má ekki og getur ekki dæmt út frá einhverri iðratilfinningu,“ sagði Engmark og lagði mikla áherslu á að sönnunarbyrði væri mjög þung í danska réttarkerfinu, enda væri með því ætlað að koma í veg fyrir dómsmorð.

Öll vafamál verði því að túlka Madsen í vil. „Ef Peter Madsen á að hljóta dóm, þá á alla vega ekki að dæma hann til lífstíðar fangelsisvistar,“ sagði Engmark í lokaræðu sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert