Náttbuxur og heilgallar bannaðir í bíó

Þeir sem vilja hafa það kósý í bíó á náttfötunum …
Þeir sem vilja hafa það kósý í bíó á náttfötunum þurfa að beina viðskiptum sínum annað en til Hawera-kvikmyndahússins á Nýja-Sjálandi. Ljósmynd/Facebook

Gestir Hawera Cinemas-kvikmyndahússins í smábænum Hawera á Nýja-Sjálandi þurfa framvegis að skilja náttbuxurnar, heilgallana og skítuga skó eftir heima þegar þeir heimsækja kvikmyndahúsið.

Eigendum kvikmyndahússins fannst klæðaburður gestanna ekki skapa rétta stemningu og birtu því vinsamlega ábendingu á Facebook-síðu sinni þar sem fólk er beðið um að mæta ekki í náttfötum, heilgöllum eða skítugum skóm í bíó. „Sama hversu sæt þau eru,“ segir meðal annars í Facebook-færslunni.

Kirsty Bourke, forstöðumaður kvikmyndahússins, segir í samtali við BBC að á síðustu tveimur mánuðum hafi færst í aukana að viðskiptavinir mæti illa til hafðir á sýningar. Hún segir að flestir hafi tekið vel í nýju regluna. „Stuðningurinn sem við höfum fengið er frábær. Viðskiptavinir hafa óskað okkur til hamingju í allan dag,“ segir Bourke.

Einhugur ríkir þó ekki um ákvörðunina og finnst sumum viðskiptavinum að kvikmyndahúsið geti ekki skert frelsi gestanna með því að setja sig í hlutverk tískulöggu. „Veitingastaðir og skemmtistaðir hafa alltaf sett reglur um klæðaburð. Af hverju ekki kvikmyndahús?“ segir í svari starfsmanns Hawera á Facebook.

Kvikmyndahúsinu hafa ekki borist neinar formlegar kvartanir eftir að nýju reglurnar tóku gildi um helgina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert