Andar enn án öndunarvélar

Alfie Evans.
Alfie Evans. AFP

Faðir hins tæplega tveggja ára gamla Alfie Evans segir að læknar hafi verið furðulostnir er drengurinn hélt áfram að anda eftir að slökkt var á öndunarvél hans. Foreldrar drengsins töpuðu dómsmáli þar sem þau reyndu að koma í veg fyr­ir að lækn­ar slökktu á önd­un­ar­vélinni. Vildu þau freista þess að flytja drenginn undir læknishendur í Róm.

Al­fie er 23 mánaða gam­all og þjá­ist af afar sjald­gæf­um tauga­hrörn­un­ar­sjúk­dómi sem veld­ur því að hann fær ít­rekaða krampa. Al­fie hef­ur verið í dái í eitt ár. 

Slökkt var á öndunarvélinni í gærkvöldi. Tom Evans, faðir Alfies, segir að hann andi enn.

Foreldrar Alfies, Tom Evans og Kate James, eru frá Liverpool. Enn er einn þáttur dómsmálsins eftir og mun dómari taka hann fyrir síðdegis í dag.

Evans ræddi við fjölmiðlamenn fyrir utan sjúkrahúsið þar sem sonur hans liggur í dag. Hann segir læknana hafa verið „furðulostna“ er sonur hans hóf að anda af sjálfsdáðum er slökkt hafði verið á öndunarvélinni. „Við erum á þeim stað að mamma hans gat sofnað við hlið hans svo að hún getur loks sofið, henni líður vel í kringum hann.“

Er Evans ræddi við fjölmiðlamenn hafði verið slökkt á öndunarvélinni í yfir níu klukkustundir. Hann segir að nú sé ljóst að Alfie þurfi á aðstoð að halda og að hann ætti að fá hana. Sjúkrahúsið hefur neitað að tjá sig við fjölmiðla um heilsu Alfies í dag.

Frétt Sky-sjónvarpsstöðvarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert