Lífvörður Bin Laden á bótum í Þýskalandi

Osama bin Laden. Sami A er sagður hafa verið lífvörður …
Osama bin Laden. Sami A er sagður hafa verið lífvörður hans í Afganistan um nokkurra mánaða skeið árið 2000. Ljósmynd/Wikipedia

Túnisískur karlmaður, sem sagður er hafa verið lífvörður Osama Bin Laden um tíma þiggur nú bætur hjá þýska ríkinu.

Maðurinn, sem þýskir fjölmiðlar nefna Sami A hefur búið í Þýskalandi frá 1997 og fær greiddar A 1,168 evrur (um 144 þúsund kr.) í bætur á mánuði. Sami A neitar öllum tengslum við hryðjuverkasamtök, en upplýst var um greiðslurnar  eftir fyrirspurn frá hægri öfgaflokkinum AfD.

Þýsk yfirvöld hafa ennfremur útilokað að senda Sami aftur til Túnis þar sem hann eigi á hættu að vera pyntaður þar.

Bin Laden var leiðtogi al-Kaída hryðjuverkasamtakanna áður en hann var skotinn til bana af bandarískum sérsveitum í Pakistan 2011.

Þrír flugmannanna sem stýrðu farþegavélum á tvíburaturnana í New York þann 11. september 2001 voru liðsmenn al-Kaída sellu í Hamborg.

Samkvæmt vitnisburði í hryðjuverkaréttarhöldum í Þýskalandi 2005 starfaði Sami A sem lífvörður fyrir Bin Laden í Afganistan um nokkurra mánaða skeið árið 2000. Sjálfur hefur hann neitað þeim ásökunum, en dómari tók orð vitnisins trúanleg.

Hann var rannsakaður vegna meintra tengsla sinna við al-Kaída samtökin árið 2006, en ekki ákærður.

Sami A býr að sögn BBC í borginni Bochum í Þýskalandi ásamt þýskri eiginkonu sinni og fjórum börnum. Hann fékk tímabundið dvalarleyfi í Þýskalandi 1999 en hælisumsókn hans var hafnað árið 2007 þar sem að þýsk yfirvöld telja hann öryggisógn og er honum gert að gefa sig daglega fram á næstu lögreglustöð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert