Norska lögreglan fær rafbyssur

Rafbyssa. Ekki er enn ljóst hvaða tegund norska lögreglan hyggst …
Rafbyssa. Ekki er enn ljóst hvaða tegund norska lögreglan hyggst velja sér til notkunar í tilraunaverkefninu sem hefst 1. janúar 2019.

Rafmagnsvopn sem gefa frá sér allt að 50.000 volta stuð munu bætast í vopnabúr lögreglunnar í Ósló og Troms auk austur- og suðvesturumdæmanna í Noregi 1. janúar 2019. Notkun slíkra vopna í öðrum löndum hefur gefið góða raun að sögn Knut Smedsrud, viðbúnaðarstjóra norska lögreglustjóraembættisins.

Til að byrja með verður um tveggja ára reynslutíma að ræða og munu lögreglumenn framangreindra umdæma sitja vikulangt námskeið í notkun rafmagnsvopna áður en þeim verður heimilt að beita slíku vopni við störf. Lögreglumenn í Noregi ganga nú þegar með skotvopn á stöðum þar sem líklegt er að til þeirra þurfi að grípa, svo sem í Ósló og á Gardermoen-flugvelli.

„Þetta er valdbeitingartæki sem lögregla í öðrum löndum hefur beitt með góðum árangri,“ segir Smedsrud við norska ríkisútvarpið NRK og á þar við rafbyssurnar. „Tækin valda minni skaða en sum önnur vopn sem lögreglu eru tiltæk,“ segir hann enn fremur.

Amnesty International lýsir áhyggjum

Samkvæmt fyrstu drögum að prufutímabilinu verður notkun rafbyssanna með þeim hætti að eingöngu lögreglumenn sem lokið hafa prófi frá norska lögregluháskólanum hafa heimild til að bera þær og gert er ráð fyrir að fyrst um sinn beri einn lögreglumaður í hverri lögreglubifreið slíkt vopn.

Mannréttindasamtökin Amnesty International í Noregi hafa lýst yfir áhyggjum af þessari rafvæðingu lögreglunnar eins og dagblaðið Aftenposten greinir frá, en það ræðir við Gerald Folkvord, stjórnmálaráðgjafa Noregsdeildar samtakanna.

„Það er nauðsynlegt að fólk átti sig á því að rafmagnsvopn geta valdið alvarlegu líkamstjóni,“ segir Folkvord. „Þau geta meira að segja verið banvæn. Þessi vopn þarf að umgangast nákvæmlega eins og [hefðbundin] skotvopn og þau má aðeins nota við aðstæður þar sem réttlætanlegt hefði verið að beita skotvopnum – og við slíkar aðstæður eingöngu,“ segir Folkvord enn fremur.

NRK ber Reuters-fréttastofuna fyrir þeirri tölfræði að í 153 tilfellum í Bandaríkjunum, þar sem manneskja lést í lögregluaðgerðum þar sem rafvopnum var beitt, hafi rafvopnið annaðhvort beinlínis verið orsökin eða andlát verið afleiðing beitingar þess með óbeinum hætti. Nær öll umrædd tilvik áttu sér stað eftir síðustu aldamót.

Norska lögreglan hefur enn ekki ákveðið hverrar gerðar rafbyssurnar verða eða til hvaða framleiðanda hún muni leita.

Aðrar fréttir um málið en þær sem vísað hefur verið í:

Frá NRK

Frá Avisa Nordland

Frá TV2

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert