Alfie litli þjáist ekki

Ljósmynd af Alfie sem móðir hans, Kate James, sendi fjölmiðlum …
Ljósmynd af Alfie sem móðir hans, Kate James, sendi fjölmiðlum í gær. Ljósmynd/Kate James

Tom Evans, faðir Alfie litla, segir að drengnum vegni „ótrúlega vel“ eftir að slökkt var á öndunarvél hans í kjölfar dómsúrskurðar í fyrrakvöld. Alfie andar nú af sjálfsdáðum en er enn meðvitundarlaus á sjúkrahúsi í Liverpool líkt og hann hefur verið vegna taugahrörnunarsjúkdóms í heilt ár. Foreldrarnir vildu freista þess að leita lækninga fyrir Alfie á Ítalíu en á það hafa dómsstólar ekki fallist. Telja dómarar að Alfie sé of veikburða til að lifa ferðalagið af.

Evans ræddi við fréttamann Sky-sjónvarpsstöðvarinnar 36 klukkustundum eftir að slökkt hafði verið á öndunarvél drengsins. „Honum vegna vel miðað við aðstæður. Hann þjáist ekki ennþá, engin merki eru um það.“

Hann segir læknum hafa komið mjög á óvart er Alfie hóf að anda af sjálfsdáðum eftir að slökkt hafði verið á öndunarvélinni. Ogt það geri hann enn sem sé mjög óvænt.

Foreldrarnir segjast ekki vera búin að gefa upp alla von að þeim verði heimilt að flytja drenginn til Ítalíu. Evans segir að hann myndi sætta sig við að taka drenginn heim til sín og að sú stund nálgist en að hann yrði enn ánægðari að koma honum til meðferðar á Ítalíu. „Hann hefur sannað að hann er enn að berjast og hann hefur sannað að læknarnir höfðu rangt fyrir sér og að dómstólarnir höfðu rangt fyrir sér.“

Evans segir að læknarnir hafi sagt sér að Alfie myndi ekki lifa í meira en fimm mínútur eftir að slökkt var á öndunarvélinni. „En hér erum við nú, 36 klukkustundum síðar og honum vegnar alveg ótrúlega vel.“

Síðdegis í dag munu dómarar enn og aftur fjalla um mál Alfies litla og hér er hægt að fylgjast með beinni lýsingu af því máli. Dómarinn mun taka enn einu sinni til skoðunar, nú þegar Alfie er enn á lífi, hvort heimilt verði að senda hann til Ítalíu.

Frétt Sky.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert