Fyrsti hvítabjörn hitabeltisins allur

Inuka, fyrsti hvítabjörninn sem fæddist í hitabeltinu, var aflífaður í dag eftir að heilsu hans tók að hraka hratt. Starfsmenn dýragarðsins í Singapúr syrgja björninn sem var eitt mesta aðdráttarafl garðsins. 

Inuka varð 27 ára sem er hár aldur hjá hvítabjörnum, sérstaklega meðal þeirra sem eru í haldi í dýragörðum. 

Hann fæddist í dýragarðinum í Singapúr og dró þangað marga gesti með leikgleði sinni. 

En síðustu árin glímdi hann við aldurstengda kvilla, m.a. gigt. Í byrjun apríl fór hann í læknisskoðun sem leiddi í ljós ýmis fleiri heilsufarsvandamál. Máttur hans hafði minnkað mikið og átti hann orðið erfitt með gang. Þá hafði hann fengið skurði á þófa sína og sár á kviðinn. Er læknar skoðuðu hann aftur nokkru síðar kom í ljós að hann sýndi engin batamerki og var því ákveðið að aflífa hann. 

Inuka í búri sínu í dýragarðinum í Singapúr í desember …
Inuka í búri sínu í dýragarðinum í Singapúr í desember í fyrra. Áður fyrr var hann leikglaður en síðustu mánuðina hélt hann sig til hlés. AFP

„Singapúrar hafa þekkt Inuka frá því hann var húnn. Þeir hafa fylgst með honum vaxa úr grasi og eldast,“ segir Mohan Ponichamy, einn af dýrahirðum garðsins. „Það voru forréttindi og sannur heiður að fá að sjá um hann, eins erfitt og það stundum var, og það hefði ekki verið réttlátt að láta hann þjást lengur.“

Inuka hafði fengið öldrunarþjónustu í dýragarðinum síðustu ár líkt og fleiri dýr á hans reki. Hann hafði svo dregið sig inn í skel síðustu mánuði og virtist ekki njóta þess lengur að leika sér. 

Margir Singapúrar hafa tjáð tilfinningar sínar um dauða Inuka á samfélagsmiðlum. Minningarathöfn verður haldin um björninn á morgun. 

Inuka fæddist 26. desember árið 1990. Faðir hans hét Nanook og var veiddur í Kanada. Móðir hans Sheeba hafði alist upp í dýragarði í Köln í Þýskalandi.

Gestir dýragarðsins í Singapúr fylgjast með Inuka í búri sínu. …
Gestir dýragarðsins í Singapúr fylgjast með Inuka í búri sínu. Myndin er tekin um miðjan apríl. AFP

Yfirvöld dýragarðsins segjast ekki ætla að fá annan hvítabjörn og hafa til sýnis.

Aðeins um 22 þúsund hvítabirnir eru nú villtir í heiminum að mati umhverfissamtakanna World Wildlife Fund (WWF). Tegundin er í viðkvæmri stöðu að mati Alþjóðadýraverndunarsjóðsins. 

Þeir halda yfirleitt til í köldu loftslagi. Í Singapúr getur orðið mjög heitt og þar fer hitinn yfirleitt ekki undir 25°C. Þetta hlýja loftslag er því mjög óvenjulegt fyrir hvítabjörn.

Hvítabirnir þrífast í köldu loftslagi enda oft kallaðir ísbirnir. Í …
Hvítabirnir þrífast í köldu loftslagi enda oft kallaðir ísbirnir. Í Singapúr fer hitinn sjaldan undir 25°C. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert