Hefur dulbúist í meira en áratug

„Ég hef aldrei litið á mig sem stúlku,“ segir Sitara Wafadar, 18 ára gömul afgönsk stúlka sem hefur dulbúist sem drengur í meira en áratug. Foreldra hennar dreymdi um að eignast son en þess í stað eignuðust þau fimm dætur.

Aðstæður þær sem Sitara býr við nefnast „bacha poshi“ sem í dari (persnesk mállýska sem er töluð í Afganistan) vísar til stúlkna sem eru klæddar eins og drengir. Með því taki stúlkan á sig hluta af þeim skyldum sem lagðar eru á syni og njóti um leið ýmissa forréttinda sem drengir njóta í landi þar sem feðraveldið ræður ríkjum.

Sitara Wafadar er 18 ára stúlka sem klæðist sem karlmaður …
Sitara Wafadar er 18 ára stúlka sem klæðist sem karlmaður og vinnur í múrsteinaverksmiðju til þess að framfleyta fjölskyldu sinni. AFP

Sitara býr ásamt fjölskyldu sinni í Nangarhar-héraði og hefur þóst vera drengur nánast allt sitt líf. Hana dreymir um að vera með sítt hár líkt og aðrar stúlkur en þess í stað klæðist hún karlmannsfatnaði og er stutthærð.

Hún starfar í múrsteinaverksmiðju ásamt föður sínum sex daga í viku. Launin fara að miklum hluta upp í skuld við eigandann. „Faðir minn segir alltaf „Sitara er eins og elsti sonur minn,“,“ segir hún. „Stundum fer ég í jarðarfarir sem elsti sonur hans,“ bætir Sitara við en stúlkur fá annars ekki að mæta við slíkar athafnir með feðrum sínum. 

Bacha poshi hefur lengi verið við lýði í Afganistan þar sem strákar eru álitnir meira virði en stelpur. Yfirleitt eru það fjölskyldur þar sem afkomendurnir eru allt stúlkur sem velja þessa leið. Því með því að klæðast karlmannsfötum geta stúlkur tekið á sig skyldur drengja og njóta þeirra forréttinda að verða ekki fyrir áreitni. Ekki spilli fyrir að njóta frelsis sem strákar hafa og taka sem sjálfsögðum hlut í landi þar sem konur eru álitnar annars flokks þegnar.

Sitara Wafadar býr til 500 múrsteina á dag og fyrir …
Sitara Wafadar býr til 500 múrsteina á dag og fyrir það fær hún rúmar 200 krónur. AFP

Yfirleitt hætta stúlkur að klæðast að hætti stráka um kynþroskaaldur ef þær eru bacha posh en Sitara segist hafa ákveðið að halda því áfram í varnarskyni og til þess að styðja framfærslu fjölskyldunnar sem býr við bág kjör.

„Þegar ég fer í vinnuna gera fáir sér grein fyrir því að ég er stúlka,“ segir Sitara og bætir við að ef þeir myndu átta sig á því að 18 ára stúlka væri að vinna frá morgni til kvölds í múrsteinaverksmiðju biðu hennar fjölmörg vandamál. „Ég gæti jafnvel átt von á því að mér yrði rænt.“

Sitara byrjaði að vinna í verksmiðjunni þegar hún var átta ára gömul og fylgdi þar í fótspor eldri systra sem einnig tókust á við múrsteina frekar en skólabækur. Hún fær rúmar tvö hundruð krónur fyrir að búa til 500 múrsteina á dag. Vinnudagurinn er frá 7 að morgni til 17 síðdegis sex daga vikunnar. 

Hún segist sátt við starfið en fólk segi henni að þetta gangi ekki lengur þar sem hún sé orðin kynþroska og þá þurfi hún ekki að vinna lengur í múrsteinaverksmiðju. „En hvað ætti ég að gera? Ég hef enga aðra kosti.“

Faðir hennar, Noor, segir að guð hafi ekki fært honum syni og því hafi hann ekki átt annarra úrkosta völ en að neyða dóttur sína í strákaföt og skikka hana í vinnu. 

AFP

Fjölskyldan skuldar verksmiðjueigandanum og ættingjum hans 36 þúsund krónur en peningana fékk hún að láni til að greiða lækniskostnað móður Sitara sem er með sykursýki. 

„Ef ég hefði átt son þá stæði ég ekki frammi fyrir öllum þessum vandamálum og líf dætra minna væri betra að öllu leyti,“ segir Noor í viðtali við AFP. „Öll ábyrgðin er á mínum herðum og Siatra. Við verðum að framfleyta fjölskyldunni og greiða lánin til baka.“

Prófessor í félagsfræði við háskólann í Kabúl, Baryalai Fetrat, segir að enn sé bacha poshi-hefðinni fylgt á ákveðnum íhaldssömum svæðum í Afganistan.

Oft eiga stúlkur, sem hafa klæðst sem drengir árum saman, erfitt með að staðsetja sig og kynvitund sína í samfélagi sem stýrt er af körlum og þeirra hagsmunum. 

„Stúlkum finnst erfitt að verða sjálfum sér líkar eða að hegða sér sem undirgefnar eiginkonur manna sinna. Þetta getur leitt til þunglyndis sem og heimilisofbeldis,“ segir Fetrat. 

Feðginin Noor og Sitara Wafadar.
Feðginin Noor og Sitara Wafadar. AFP

Fatima, móðir Sitara, segir að hún vildi óska þess að Sitara gæti klæðst kvenmannsfötum og verið heima en það sé einfaldlega ekki í boði. „Hún þarf að færa björg í bú, fara með mig til læknis og sinna öðrum störfum þar sem eiginmaður minn er orðinn gamall.“

Sitara gerir sér grein fyrir því að staða hennar er óréttlát en hún þrjóskast við. Ekki bara sjálfrar sín vegna heldur miklu frekar vegna systur sinnar sem er 13 ára. Því hún þyrfti að taka við hlutverki Sitara. 

„Ég mun taka að mér erfiðið áfram því ég vil ekki að litla systir mín þurfi að klæðast eins og strákur og sinna starfi í verksmiðjunni,“ segir Sitara. Ef hún sinni ekki starfi sínu þá bíði fjölskyldunnar erfiðleikar og vandamál sem erfitt yrði að leysa. 

En þrátt fyrir að hafa í svo mörg ár verið í hlutverki stráks ímyndar Sitara sér stundum hvernig það væri ef hún ætti bróður og hún hefði frelsi til þess að vera síðhærð og ganga í skóla. Ef hún ætti bróður þá gæti hún látið drauma sína rætast.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert