Kennsl borin á lík bresks karlmanns

Fáni Ríkis íslams.
Fáni Ríkis íslams. Ljósmynd/Wikipedia.org

Lögreglan í Suður-Afríku greindi frá því í dag að lík, sem fannst um miðjan febrúar í Tugela-fljótinu, væri af breskum karlmanni sem hvarf sporlaust ásamt eiginkonu sinni skömmu áður, en síðast spurðist til hjónanna 10. febrúar.

Fram kemur í frétt AFP að staðfest hefði verið að um væri að ræða lík Rodneys Saunders sem var 74 ára gamall. Ekkert hefur spurst til eiginkonu hans, Rachel Saunders, sem er 63 ára. Hjónin, þekktir grasafræðingar, voru að leita að sjaldgæfum fræjum þegar þau hurfu. 

Talið er að stuðningsmenn íslamistasamtakanna Ríkis íslams hafi rænt hjónunum. Í frétt AFP er  haft eftir lögreglunni að leitin að Rachel Saunders haldi áfram. Fjórir hafa verið handteknir grunaðir um að tengjast málinu. Farsímar hjónanna fundust í fórum eins þeirra. Tveir aðrir höfðu flaggað fána Ríkis íslams skammt frá þeim stað þar sem þau hurfu.

Eftir að hjónin hurfu voru háar fjárhæðir teknar út af bankareikningi þeirra og Toyota-bifreið þeirra fannst yfirgefin og blóðblettir inni í henni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert