Í lífshættu eftir árás við Anfield

Tveir stuðningsmenn Roma á þrítugsaldri eru í haldi bresku lögreglunnar eftir að til átaka kom á milli stuðningsmanna Liverpool og Roma fyrir leik liðanna á Anfield í gær. 53 ára gamall maður er á gjörgæslu eftir átökin og er hann í lífshættu.

Tvímenningarnir, sem eru 25 og 26 ára, eru frá Róm og voru handteknir á grundvelli morðtilraunar. Fórnarlambið, sem er talið að sé aðdáandi Liverpool, er með höfuðáverka, samkvæmt frétt BBC.

Í yfirlýsingu frá Liverpool kemur fram að stjórnendur félagsins eru miður sín vegna þessa og heita fórnarlambinu fullum stuðningi. Árásin átti sér stað fyrir utan krána Albert við Walton Breck Road klukkan 19:35 að staðartíma, klukkan 18:35.

Til átaka kom á milli stuðningsmanna liðanna skömmu áður en leikurinn hófst klukkan 18:45 að íslenskum tíma. Um 80 stuðningsmenn Roma eiga að hafa gengið um hliðargötu til þess að komast á svæðið þar sem stuðningsmenn Liverpool höfðu safnast saman. Samkvæmt upplýsingum BBC sást einn stuðningsmannanna liggjandi meðvitundarlaus í götunni og annar sást vopnaður hamri. Sjö menn á aldrinum 20 til 43 ára hafa verið handteknir og að sögn lögreglu eru það stuðningsmenn beggja liðanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert