Taldi Taylor Swift sitja um sig

Travis Reinking er veikur og þjáist af ranghugmyndum.
Travis Reinking er veikur og þjáist af ranghugmyndum. AFP

Þrátt fyrir að lögregla hafi afturkallað byssuleyfi hans og fyrirskipað honum að afhenda  öll vopn fékk Travis Reinking byssurnar í hendurnar aftur. Hann er nú ákærður fyrir að hafa myrt fjórar manneskjur. Reinking þjáist af ranghugmyndum og hefur meðal annars sakað Taylor Swift um að sitja um sig.

Travis Reinking var handtekinn á mánudag eftir að hafa aðfararnótt sunnudags skotið fjórar manneskjur til bana á veitingastað í Nashville og sært nokkra. Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem Reinking kemst í kast við lögin en í nokkur ár hefur hann ítrekað átt í samskiptum við lögreglu. Meðal annars FBI eftir að hafa reynt að komast yfir varnargirðinguna við Hvíta húsið fyrir nokkrum mánuðum.

Vildi ræða málin við Trump

Reinking þjáist af alvarlegum ofskynjunum og segja vinir hans og ættingjar við lögreglu að hann ætlaði sér að kvænast söngkonunni Taylor Swift. Á sama tíma sakaði hann Swift um að sitja um sig og að hafa brotist inn í Netflix aðgang hans. Travis Reinking var handtekinn fyrir utan Hvíta húsið í fyrra þar sem hann ætlaði að ræða málin við forseta landsins, Donald Trump. 

Taylor Swift á sér marga aðdáendur.
Taylor Swift á sér marga aðdáendur. AFP

Nú situr Reinking, sem er 29 ára gamall, á bak við lás á slá ákærður fyrir fjórfalt morð. Hann á ekki möguleika á að fá lausn gegn tryggingu þangað til mál hans verður tekið fyrir hjá dómstólum. 

„Hann er góður strákur sem missti stjórnina af einhverjum ástæðum,“ segir Dave Warren, sem eitt sinn starfaði með Reinking í Colorado. Annar vinnufélagi sem starfaði með honum  segir að ungi maðurinn þjáist af geðröskunum. 

Notaði hvorki áfengi né eiturlyf

Að sögn lögreglu drakk hann hvorki né neytti eiturlyfja. Heldur er Reinking þekktur fyrir góðar gáfur, hversu rólegur hann er og kurteis auk þess að vera snillingur þegar kemur að stjórnun tækja. Hann sé hvorki stuðningsmaður ríkisstjórnarinnar né  samtaka byssuframleiðenda. Hann er einfaldlega veikur maður. 

Reinking myrti fjórar manneskjur á og við Waffle House.
Reinking myrti fjórar manneskjur á og við Waffle House. AFP

Í fréttum bandarískra fjölmiðla kemur fram að Reinking hafi ítrekað rætt um það við lögreglu að Swift sæti um hann. Í raun hafi hann verið blindaður af ást til hennar og á að hafa keypt hring fyrir 14 þúsund Bandaríkjadali, 1,4 milljónir króna, og keyrt til Kaliforníu í þeirri von að hitta hana. Samt hefur komið fram í samtölum við vinnufélaga að Reinking væri samkynhneigður og hefði aldrei farið leynt með það.

Báðu FBI um að aðstoða hann

Ken og Darlene Sustrich, sem voru vinnuveitendur hans um tíma, bera honum vel söguna en um leið að síðustu dagana sem hann var í vinnu hjá þeim hafi hann sýnt merki um ofsóknarkennd og skyndilega sagt upp störfum og aldrei látið sjá sig eftir það.

„Þú gast séð að það var eitthvað að hrjá hann án þess að það væri ofbeldisfullt,“ segir  Darlene Sustrich. Stuttu seinna var hringt í þau frá alríkislögreglunni en þá hafði Reinking reynt að stökkva yfir varnargirðingu Hvíta hússins. Hún segir að þau hafi beðið lögregluna um að veita honum alla þá aðstoð sem hún væri fær um.

Reinking reyndi að komast yfir varnargirðingu Hvíta hússins til þess …
Reinking reyndi að komast yfir varnargirðingu Hvíta hússins til þess að ræða við Trump. AFP

Ken Sustrich greindi lögreglu frá því að hann hafi haft samband við föður Reinking og lýst áhyggjum sínum yfir geðheilsu unga mannsins. Sustrich segir að faðirinn hafi sagt að hann vissi af þessu og reynt að endurvekja sambandið við son sinn.

Í júní í fyrra fékk lögreglan í Illinois tilkynningu um að Reinking hafi ruðst inn í almenningssundlaug og stokkið ofan í laugina klæddur í nærbrók og bleikri kvenmannskápu.

Þann sama dag greindu starfsmenn í fyrirtæki fjölskyldu hans, J&J Cranes, frá því að hann hafi komið út úr íbúð sem var í sama húsi og skrifstofa fyrirtækisins, klæddur í bleika kápu, með riffil í hendinni æpandi eitthvað rugl. Lögreglan hafði samband við föður hans sem ekki var á svæðinu. Hann sagði lögreglu að hann hefði tekið fjórar byssur af syni sínum þegar hann „glímdi við vanda“ en afhent honum vopnin að nýju síðar. Lögreglan ráðlagði  Jeff Reinking að læsa byssurnar inni í skáp þangað til Travis fengi geðhjálp og samþykkti Jeff Reikning að gera það, samkvæmt því sem kemur fram í skýrslu lögreglu frá þessum tíma.

Heimili Travis Reinking.
Heimili Travis Reinking. AFP

Vopnin tekin en pabbinn afhenti honum þau aftur

Þegar Reinking var handtekinn við Hvíta húsið þá var hann óvopnaður en lögreglan í Illinois afturkallaði byssuleyfi hans í kjölfarið að beiðni FBI. Fjórar byssur, þar á meðal AR-15 riffillinn sem hann notaði við árásina á Waffle House, voru settar í vörslu föður hans sem er heimilt samkvæmt lögum í Illinois. Jeff Reinking segir að hann hafi síðar látið son sinn fá byssurnar aftur.

Samkvæmt New York Times sýndi Reinking áfram merki um ofsóknarranghugmyndir (paranoid delusions), sem um þriðjungur geðklofasjúklinga fær. Það eru ranghugmyndir um fjandsemi eða samsæri. Sjúklingar með ofsóknarranghugmyndir geta til að mynda verið sannfærðir um að verið sé að svindla á þeim, ofsækja þá, eitra fyrir þeim eða brugga þeim önnur launráð. 

Í ágúst leitaði hann til lögreglu og vildi tilkynna um að 20-30 manns væru að hlera tölvu hans og síma. Jafnframt tilkynnti hann um fólk sem gelti eins og hundar fyrir utan íbúð hans.

Ekki er vitað nákvæmlega hvers vegna Reinking ákvað að flytja til Nashville frá Morton, Illinois, né heldur hvort það hafi tengst Swift á einhvern hátt. Swift á hús í Nashville en hún á hús víðar í Bandaríkjunum.

Travis Reinking eftir að hann var handtekinn síðdegis á mánudag.
Travis Reinking eftir að hann var handtekinn síðdegis á mánudag. AFP

Að sögn lögreglu í Nashville vissi hún ekki um þráhyggju Reinkings í garð Swift en það sé ekkert nýtt af nálinni. 

„Þú myndir ekki trúa því hversu margir eru helteknir af Taylor Swift,“ segir lögreglustjórinn í  Nashville, Steve Anderson.

Lítið hefur borið á Travis Reinking undanfarna mánuði og í raun ekki fyrr en aðfaranótt sunnudags þegar hann gekk nánast nakinn inn á vöfflustaðinn og skaut á allt sem fyrir honum varð. 160 lögreglumenn tóki þátt í leitinni að honum þangað til hann fannst í skóglendi skammt frá Waffle House síðdegis á mánudag. Þá var hann með bakpoka á sér með hlaðinni skammbyssu en að sögn lögregu reyndi hann ekki að komast undan handtöku.

Opinion New York Times 

New York Times

CNN

Washington Post

BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert