40 ára leit lokið með handtöku

Morðingi og nauðgari, Joseph James DeAngelo.
Morðingi og nauðgari, Joseph James DeAngelo. AFP

Lögreglan í Kaliforníu hefur handtekið fyrrverandi lögreglumann sem grunaður er um morð, nauðganir og innbrot á áttunda og níunda áratug síðustu aldar. Maðurinn sem um ræðir, Joseph James DeAngelo, er rúmlega sjötugur að aldri.

Joseph James DeAngelo býr í Sacramento og voru borin kennsl á hann þegar málin voru tekin til rannsóknar að nýju. Hann er sakaður um að hafa myrt 12 manns, 51 nauðgun og yfir 120 innbrot.

DeAngelo er haldið á grundvelli gruns um að hafa framið fjögur morð, að hafa árið 1978 myrt Brian og Katie Maggiore í Sacramento og að hafa árið 1980 myrt Charlene og Lyman Smith í Ventura-sýslu. Saksóknarar eiga von á því að fleiri mál bætist við á næstunni.

Við heimili Joseph James DeAngelo.
Við heimili Joseph James DeAngelo. AFP

Á vef BBC kemur fram að lögreglan hafi fylgst með DeAngelo um hríð og hafi notað lífsýni til þess að tengja hann við glæpina. Þegar tilkynnt var um handtökuna sagði héraðssaksóknari í í Sacramento, Anne Marie Schubert, að svarið hafi alltaf verið að finna í Sacramento. 

„Umfang málsins krafðist þess að það yrði leyst,“ segir hún. Væntanlega verður farið fram á dauðarefsingu yfir DeAngelo. Fyrir tveimur árum bauð alríkislögreglan (FBI) þeim sem veitt gæti upplýsingar sem myndu leiða til þess að málið yrði upplýst 50 þúsund Bandaríkjadali að launum.

„Allir voru hræddir“

Joseph James DeAngelo hefur undanfarna áratugi búið í úthverfi og lítið borist á. Hann á uppkomin börn sem urðu felmtri slegin þegar hann var handtekinn. Málið rifjar upp erfiða tíma í huga margra, bæði almennings sem og lögreglumanna.

„Allir voru hræddir,“ segir lögreglumaður hjá FBI, Marcus Knutson. Hann er fæddur og alinn upp í Sacramento og það var hann sem greindi frá því fyrir tveimur árum að málið yrði tekið upp aftur. „Við erum að tala um að fólk svaf með skotvopn uppi í rúmum sínum og við erum að tala um að fólk fékk sér hunda. Fólk var óttaslegið og hafði fullan rétt á því,“ segir Knutson.

Rekinn úr lögreglunni sakaður um búðarþjófnað

Í frétt Sacramento Bee kemur fram að DeAngelo búi ásamt dóttur og dótturdóttur í úthverfi Sacramento, Citrus Heights-hverfinu. Hann var rekinn úr lögreglunni í Auburn árið 1979 þegar hann var ákærður fyrir búðarþjófnað. Hann hafði stolið hamar og dós með hundamat. Að sögn lögreglu bendir allt til þess að hann hafi framið hluta af glæpum sínum á sama tíma og hann starfaði í lögreglunni. Á árunum 1973 og 1976 var hann í lögreglunni í Exeter og á þeim tíma voru framdir nokkrir glæpir sem talið er að hann hafi framið.

AFP

Jane Carson-Sandler var nauðgað á heimili sínu í Citrus Heights-hverfinu í október 1976 og þegar hún heyrði af handtökunni í gær hafi henni brugðið mjög og hún um leið fyllst hamingju og gleði. Hún skrifaði bók um nauðgunina og kom fram í heimildarþætti um fjöldamorðingjann og nauðgarann á sínum tíma.

Glæpamaðurinn gekk undir ýmsum nöfnum á sínum tíma. Má þar nefna: The Golden State Killer, East Area Rapist, Original Night Stalker og Diamond Knot Killer. Talið er að hann hafi framið glæpi sína á árunum 1976 og 1986 og fórnarlömb hans voru einkum stúlkur og konur á aldrinum 12 til 41 árs.

Árásarmaðurinn braust inn á heimili fólks að næturlagi, batt og nauðgaði konum. Áður en hann flúði af vettvangi stal hann hlutum eins og peningum og skartgripum. Síðasta fórnarlambið sem vitað er um er nauðgun og morð á 18 ára gamalli konu í Irvine, Orange-sýslu, í maí 1986.

Um fjörutíu ár eru síðan leitin hófst að morðingjanum og nauðgaranum og henni lauk ekki fyrr en í fyrradag. Maður sem braust inn á heimili kvenna, vopnaður skammbyssu og með grímu fyrir andliti, árum saman.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert