Byssur, sýklar og tré ráða framtíð górillunnar

Górilla í einum af þjóðgörðum Rúanda. Mynd úr safni.
Górilla í einum af þjóðgörðum Rúanda. Mynd úr safni. AFP

Framtíðarhorfur górillunnar í frumskógum Afríku velta á byssum, sýklum og trjám. Þetta eru niðurstöður einnar umfangsmestu rannsóknar sem vísindamenn hafa gert á þeim górillutegundum sem búa í láglendi í vesturhluta Afríku.

BBC fjallar um rannsóknina sem nær yfir áratugi af vettvangsrannsóknum og sýndi hún fram á að górillur eru nú fleiri en fyrri rannsóknir gerðu ráð fyrir. Mikill meirihluti þeirra býr hins vegar á óvörðum svæðum þar sem hætta er á veiðiþjófnaði, eyðileggingu kjörlendis apanna og svo Ebóla veirunni.

Sambærileg mynd hefur verið dregin upp af framtíðarhorfum simpansa apa í miðríkjum Afríku, en þeir búa í afskekktum skógum Kamerún, Mið-Afríku Lýðveldisins, Kongó, Miðbaugs Gíneu og Gabon.

„Með byssunum vísum við í veiðarnar, sýklunum í Ebóla-veiruna og trjánum til þeirrar staðreyndir að dýrin þurfa á þessum skógum að halda til að lifa af,” sagði  Dr. Fiona Maisels, einn höfunda skýrslunnar og vísindamaður hjá verndarsamtökunum Wildlife Conservation Society.

„Ef skógurinn er hreinsaður á brott þá hverfa þær. Ef skóginum er breytt í ræktunarsvæði einnar tegundar trjáa þá geta górillur og simpansar ekki verið þar.“

Greinin birtist í vísindatímaritinu Science Advances, en þar fullyrða vísindamennirnir að þörf sé á að beina athyglinni að þessum stóru öpum í meira mæli en nú er gert.

Forvörslu aðgerðir verði m.a. að beinast gegn veiðiþjófnaði, því að hefta útbreiðslu sjúkdóma og að vernda kjörlendi apanna.

„Af því að 80% af górillum í vesturríkjunum og simpönsum í miðríkjunum lifa utan verndarsvæða, þá er nauðsynlegt að veita þeim jafn mikla vernd og hægt er,“ sagði Maisels.

Górillum fækkaði um 2,7% á árabilinu 2005-2013, en nú fundu vísindamennirnir hins vegar töluvert fleiri górillur og simpansa á svæðinu en fyrri áætlanir gerðu ráð fyrir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert