Neyðarnúmer á Cannes-hátíðinni

Harvey Weinstein á Cannes-hátíðinni á síðasta ári.
Harvey Weinstein á Cannes-hátíðinni á síðasta ári. AFP

Hægt verður að hringja í sérstakt neyðarnúmer til að tilkynna um kynferðislegt ofbeldi á meðan á hinni árlegu Cannes-kvikmyndahátíð stendur í Frakklandi dagana 8. til 19. maí.

Kvikmyndaframleiðandinn Harvey Weinstein hefur verið sakaður um að hafa brotið kynferðislega gegn fjórum leikkonum á hátíðinni.

„Við erum í samstarfi við kvikmyndahátíðina í Cannes til að takast á við kynferðislegt ofbeldi,“ sagði Marlene Schiappa, jafnréttismálaráðherra Frakklands.

Marlene Schiappa, jafnréttismálaráðherra Frakklands.
Marlene Schiappa, jafnréttismálaráðherra Frakklands. AFP

„Ein af þeim nauðgunum sem Harvey Weinstein er sakaður um gerðist í Cannes og þess vegna getur hátíðin ekki gert ekki neitt,“ bætti hún við en framleiðandinn er sakaður um að hafa nauðgað ítölsku leikkonunni Asia Argento á hótelsvítu þegar hún var 21 árs.

Að sögn Schiappa hefur verið gripið til aðgerða til að vernda bæði leikkonur og aðrar konur sem vinna í kringum kvikmyndaiðnaðinn á meðan á hátíðinni stendur.

Dómnefndin í Cannes í ár.
Dómnefndin í Cannes í ár. AFP

Gagnrýndir fyrir viðhorf til kvenna

Þrátt fyrir að formaður dómnefndar á Cannes-hátíðinni í ár sé ástralska leikkonan Cate Blanchett, þá hafa forsvarsmenn hátíðarinnar verið gagnrýndir fyrir viðhorf sín til kvenna í gegnum tíðina. Meðal annars hefur verið deilt á þá kröfu að konur skuli vera á háum hælum á rauða dreglinum.

Þrátt fyrir að #metoo-hreyfingin hafi verið áberandi upp á síðkastið komust aðeins þrír kvenkyns leikstjórar með myndir sínar á lista yfir þær átján myndir sem taka þátt í aðalkeppninni.

Danski leikstjórinn Lars von Trier.
Danski leikstjórinn Lars von Trier. AFP

Sumir hafa einnig undrast að danska leikstjóranum Lars Von Trier hafi verið leyft að koma aftur á hátíðina eftir að hann var settur í Cannes-bann fyrir sjö árum fyrir að segjast vera nasisti.

Björk Guðmundsdóttir, sem lék undir hans stjórn í myndinni Dancer in the Dark, greindi frá því í október að hann hefði áreitt sig við tökur á myndinni.

Francoise Nyssen, menningarmálaráðherra Frakklands, vonast til þess að kvenkyns leikstjórum fjölgi á hátíðinni. Hún, ásamt menningarmálaráðherra Svíþjóðar, ætla að stofna alþjóðlegan sjóð til að hjálpa kvenkyns leikstjórum á meðan á Cannes-hátíðinni stendur.

Francoise Nyssen.
Francoise Nyssen. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert