Söguleg stund á skaganum

Leiðtogar Suður- og Norður-Kóreu, Moon Jae-in og Kim Jong-un, ræddu um afkjarnorkuvopnavæðingu og varanlegan frið á Kóreuskaganum á fundi sínum í nótt. Skömmu eftir miðnætti átti sér stað sá sögulegi atburður að Kim fór yfir landamærin á fund Moon. 

Varð Kim þar með fyrsti leiðtogi Norður-Kóreu til þess að stíga fæti sínum á land í S-Kóreu með því að fara yfir hernaðarlínuna sem hefur skipt Kóreuskaganum upp frá lokum Kóreustríðsins árið 1953.

Leiðtogarnir áttu hreinskiptar viðræður um afkjarnorkuvopnavæðingu og hvernig standa eigi að samkomulagi um varanlegan frið á Kóreuskaganum. Eins að koma á bættum innri samskiptum ríkjanna, segir aðstoðarmaður forseta Suður-Kóreu, Yoon Young-chan.

Kim og Moon tókust í hendur eftir að Kim kom yfir landamærin og eftir stutt spjall bauð Kim Moon að fara yfir landamærin með honum. Leiðtogarnir héldust í hendur þegar þeir stigu yfir landamærin saman og síðan aftur til Suður-Kóreu þar sem þeir ræddu framtíð ríkjanna á þessum sögulega fundi. 

Fundur þeirra fór fram á hlutlausa beltinu við landamæri Kóreuríkjanna. Fundurinn fer fram í Friðarhöllinni. Meginmarkmiðið með fundinum er að greiða fyrir fyrirhuguðum fundi Trumps með Kim Jong-un sem gert er ráð fyrir að verði haldinn í maí eða júní.

Fundur leiðtoga Kóreuríkjanna tveggja í dag er þriðji leiðtogafundur landanna frá því að Kóreustríðinu lauk árið 1953. Báðir fyrri fundirnir voru haldnir í höfuðborg Norður-Kóreu.

Fyrsti leiðtogafundurinn var haldinn í júní 2000 þegar Kim Jong-il, faðir núverandi leiðtoga Norður-Kóreu, ræddi við Kim Dae-jung, þáverandi forseta Suður-Kóreu. Umfjöllun fjölmiðla og yfirlýsingar ráðamanna um fundinn einkenndust af mikilli bjartsýni. „Nýtt tímaskeið hefur runnið upp fyrir þjóð okkar,“ sagði t.a.m. Kim Dae-jung, eftir fundinn. Bandarísk stjórnvöld töluðu um „nýja dögun“ í samskiptum Kóreuríkjanna.

Annar leiðtogafundurinn var haldinn í október 2007, ári eftir að Norður-Kóreumenn sprengdu fyrstu kjarnorkusprengju sína í tilraunaskyni. Leiðtogar ríkjanna undirrituðu yfirlýsingu þar sem hvatt var til kjarnorkuafvopnunar og samnings um varanlegan frið á Kóreuskaganum.

Almenningur í Suður-Kóreu virðist nú binda miklu minni vonir við leiðtogafundinn við landamæri ríkjanna í dag en við fyrsta fundinn fyrir átján árum. Margir Suður-Kóreumenn líta á viðræðurnar sem sýndarmennsku og óttast að einræðisstjórnin í Norður-Kóreu reki rýting í bakið á þeim síðar ef refsiaðgerðunum verður aflétt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert