Átök milli Sýrlandshers og sveita sem Bandaríkjamenn styðja

Oft hefur komið til átaka í Deir Ezzor síðustu misseri …
Oft hefur komið til átaka í Deir Ezzor síðustu misseri en sjaldan milli stjórnarhermanna og uppreisnarmanna sem njóta stuðnings Bandaríkjahers. AFP

Til átaka kom milli stjórnarhers Sýrlands og herliða studdum af Bandaríkjamönnum í austurhluta landsins í dag. Sex hermenn úr röðum bandamanna féllu að því er eftirlitssamtökin Syrian Observatory for Human Rights segja. 

Ríkisfjölmiðillinn SANA segir að stjórnarherinn hafi náð völdum í fjórum þorpum af hersveitum uppreisnarmanna sem njóta stuðnings Bandaríkjahers. Þorpin eru í Deir Ezzor-héraði en þar hafa bandalagssveitir Kúrda barist gegn vígamönnum Ríkis íslams. 

Uppreisnarherir, með stuðningi Bandaríkjanna, og sýrlenski stjórnarherinn, með stuðningi Rússa, standa báðir í hernaði gegn vígamönnum Ríkis íslams á svæðinu.

Þessar sveitir hafa gert sér far um að komast hjá átökum sín á milli og hafa ákveðnar óformlegar línur verið dregnar á milli þeirra svæða sem barist er á. Því eru átökin í dag óvenjuleg. 

Að sögn talsmanns Syrian Observatory for Human Rights hefur stjórnarherinn viljað standa vörð um yfirráð sín í borginni Deir Ezzor og haldið uppreisnarmönnum fá henni. Talsmaður uppreisnarsveitanna segir að í dag hafi komið til skotbardaga milli þeirra og stjórnarhermanna. „Sýrlenski stjórnarherinn ásamt skæruliðahópum hóf að ráðast á okkar hersveitir í sveitum Deir Ezzor,“ segir í yfirlýsingu uppreisnarmanna og þeirra bandamanna. 

Meira en 350 þúsund manns hafa týnt lífi í stríðinu í Sýrlandi sem nú hefur staðið í yfir sjö ár. Staðan í landinu er mjög flókin. Það berjast margir og ólíkir hópar gegn stjórnarhernum sem aftur nýtur stuðnings Rússa sem og ýmissa skæruliðahópa. Sameiginlega hafa þessar fylkingar að mestu unnið gegn uppgangi vígamanna Ríkis íslams og sá árangur náðst að flestir þeirra hafa hörfað. Enn eru þeir þó til staðar á þessum slóðum, þ.e. í austurhluta landsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina