Höfðar mál gegn Weinstein

Harvey Weinstein.
Harvey Weinstein. AFP

Framleiðandi þáttaraða fyrir Netflix hefur höfðað mál gegn Harvey Weinstein í New York þar sem hann er sakaður um nauðganir, kynferðislegt ofbeldi og svívirðingar á fimm ára tímabili. 

Alexandra Canosa, sem er meðal annars einn af framleiðendum Marco Polo þáttaraðarinnar, hafði áður höfðað skaðabótamál gagnvart Winstein þar sem hún fór fram á að fá 10 milljónir Bandaríkjadala í miskabætur.

Í skjölum sem lögð hafa verið fram fyrir dómstól í New York kemur fram að Weinstein hafi ítrekað hótað henni og gert henni ljóst að ef hún færi ekki að óskum hans þá hefði það alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir hana. Svo sem atvinnumissir og að hún fengi aldrei vinnu í afþreyingargeiranum ef hún greindi frá ofbeldinu opinberlega og færi ekki að vilja  hans kynferðislega.

Ofbeldið, sem var bæði kynferðislegt og líkamlegt, átti sér stað um fimm ára skeið, frá 2010 til 2015. Þar á meðal nauðgaði hann henni ítrekað.

Í ásökunum Canosa kemur fram að stjórnendur hjá Weinstein Company hafi vitað eða mátt vitað um hegðun Harvey  Weinstein í hennar garð en ekkert hafi verið gert til þess að stöðva hann. Þess í stað naut hann stuðnings annarra hjá fyrirtækinu.

Canosa segir að Weinstein hafi í ágúst í fyrra hótað henni öllu illu ef hún tjáði sig um ofbeldið. Weinstein hefur verið sakaður um að hafa beitt yfir 100 konur kynferðislegu ofbeldi, allt frá nauðgunum til áreitni síðan fréttir birtust um slíkar ásakanir á hendur honum í New York Times og New Yorker í október. 

Weinstein neitar öllum ásökunum um að hafa þvingað konur til samræðis. Fyrr í vikunni höfðaði leikkonan Ashley Judd mál gegn honum þar sem hún sakar hann um ærumeiðingar eftir að hún hafnaði honum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert