„Réttlæti múgsins“ í máli Cosby

Bill Cosby og Camille Cosby í apríl síðastliðnum.
Bill Cosby og Camille Cosby í apríl síðastliðnum. AFP

Eiginkona leikarans Bills Cosby segir að úrskurður dómstóls í Pennsylvaníu í síðustu viku um að Cosby væri sekur um kynferðisofbeldi væri „réttlæti götunnar“.

Í yfirlýsingu sem hún hefur sent frá sér gagnrýnir hún fjölmiðla, saksóknara og konurnar sem hafa sakað hann um kynferðisofbeldi.

„Þetta er réttlæti götunnar, ekki alvöru réttlæti,“ sagði Camille Cosby, sem hefur verið gift leikaranum í yfir hálfa öld.

„Það þarf að snúa þessum harmleik við, ekki bara fyrir Bill Cosby, heldur fyrir þjóðina alla,“ bætti hún við í þriggja blaðsíðna yfirlýsingu sinni þar sem hún heldur því fram að eiginmaður sinn sé saklaus.

12 manna kviðdómur komst að þeirri niðurstöðu að hinn áttræði Cosby væri sekur í þremur ákæruliðum um kynferðisofbeldi með því að hafa byrlað Andreu Constad lyf og beitt hana ofbeldi á heimili sínu í Fíladelfíu árið 2004.

Camille Cosby vill að lögreglan rannsaki saksóknaraembættið og sakar það um „ósiðlega herferð“.

Hún sakar Constand um að hafa logið og segir vitnisburð hennar ekki hafa verið studdan af sönnunargögnum og að í honum séu ýmsar mótsagnir.

Camille Cosby yfirgefur réttarsal í júní í fyrra.
Camille Cosby yfirgefur réttarsal í júní í fyrra. AFP

Camille bætir því við að fjölmiðlar hafi linnulaust málað eiginmann sinn sem djöful í mannsmynd. Það hafi komið í veg fyrir að hann fengi sanngjörn réttarhöld.

Bill Cosby dvelur á heimili sínu þar til dómur verður kveðinn upp, eftir að hafa greitt eina milljón dollara í lausnarfé.

Hámarksfangelsisdómur fyrir hvern af ákæruliðunum þremur er tíu ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert