Áfram í haldi sakaður um hryðjuverk

Andrew Brunson flutti til Tyrklands árið 1993.
Andrew Brunson flutti til Tyrklands árið 1993. AFP

Banda­rísk­ur prest­ur, sem hef­ur verið í haldi í tyrk­nesku fang­elsi í meira en eitt og hálft ár, ákærður fyrir hryðjuverk, hefur verið úrskurðaður í áframhaldandi varðhald. 

Málflutningur í máli Andrew Brunson heldur áfram 18. júlí. Hann rak kirkju í borginni Izmir í Tyrklandi og var handtekinn í október árið 2016. Verði hann fundinn sekur gæti hann átt fyrir höfði sér allt að 35 ára fangelsisdóm.

Í ákæru kemur fram að Brunson er grunaður um að hafa tekið þátt í aðgerðum hóps und­ir for­ystu Fet­hullah Gulen, eins helsta and­stæðing Er­dog­ans for­seta. Hóp­ur­inn er sakaður um að hafa reynt að steypa Er­dog­an af stóli sumarið 2016.

Brun­son neit­ar öll­um tengsl­um við hóp Gulens og segist ekki hafa haft nokkra vitneskju um vald­aránstilraun­ina sem var gerð 15. júlí 2016. 

mbl.is