Nauðgaði stúlku og kveikti í henni

AFP

Sautján ára gömul indversk stúlka berst fyrir lífinu sínu eftir að hafa verið nauðgað og brennd lifandi á Indlandi á föstudag. Önnur stúlka, sem er 16 ára gömul, var brennd lifandi þann sama dag en henni hafði einnig verið nauðgað. Stúlkurnar urðu báðar fyrir ofbeldinu í Jharkhand-ríki í austurhluta landsins.

Sextán ára gamalli stúlku var nauðgað í þorpinu Raja Kundra …
Sextán ára gamalli stúlku var nauðgað í þorpinu Raja Kundra í Jharkhand. Kveikt var í henni á föstudag þar sem einn nauðgarinn var ósáttur við að vera refsað. AFP

Stúlkan er með brunasár á 70% líkamans en vonir standa til þess að hún lifi árásina af, segir  Shailendra Barnwal, aðstoðaryfirlögregluþjónn í Pakur-héraði. Lögreglan hefur handtekið 19 ára gamlan mann sem býr í sama hverfi og fórnarlambið í tengslum við málið. Að sögn lögreglu hellti hann steinolíu yfir stúlkuna og kveiki í henni.

Greint var frá því í gær að lögreglan hefði handtekið höfuðpaurinn í hópnauðgun á 16 ára gömlu stúlkunni en málið hefur vakið mikla reiði meðal almennings á Indlandi. Fjölmenn mótmæli voru haldin víða um land um helgina. 

Maðurinn, Dhanu Bhuiyan, fannst á heimili ættingja þar sem hann faldist í kjölfar þess að hafa kveikt í stúlkunni á föstudag. Þorpshöfðinginn þar er meðal þeirra 15 sem eru haldi grunaðir um aðild að málinu. Fjölskylda stúlkunnar nýtur nú verndar lögreglu. 

Að sögn lögreglu varð Bhuiyan ævareiður eftir að þorpsráðið fyrirskipaði honum að gera 150 magaæfingar (sit-ups) og greiða 50 þúsund rúpíur, 77 þúsund krónur, í sekt í kjölfar þess að hafa nauðgað stúlkunni. 

Bhuiyan og sökunautar hans eru nú sakaðir um að hafa ráðist á foreldra stúlkunnar og síðan kveikt í húsi fjölskyldunnar en stúlkan var inni í húsinu. Yfirmaður lögreglunnar staðfestir að höfuðpaurinn í nauðguninni og morðinu hafi verið handtekinn og að réttarmeinarannsókn fari fram. Hann segir í samtali við AFP að lögreglan hafi heitið fjölskyldunni því að þeim seku verði ekki hlíft. 

Málin tvö hafa beint kastljósinu enn á ný að því hvernig tekið er á nauðgunum á Indlandi en tilkynnt var um 40 þúsund nauðganir þar í landi árið 2016.

Mikil reiði og heift ríkir þar vegna annarra nauðgunarmála á stúlkubörnum. Líkt og fjallað hefur verið um á mbl.is var átta ára gamalli stúlku nauðgað af hópi karla og hún síðan myrt í Kasmír-héraði. Málið verður tekið fyrir í hæstarétti á morgun. Átta hindúar hafa verið sakaðir um að hafa rænt stúlkunni, nauðgað henni ítrekað og myrt hana. Stúlkan var múslimi.

Aðgerðasinnar úr hópi hindúa hafa mótmælt handtökunni harðlega og segja rannsókn lögreglu hlutdræga. Hæstiréttur um dæma hvort flytja eigi réttarhöldin frá Jammu, þar sem hindúar eru í meirihluta í þessu ríki þar sem flestir íbúanna eru múslimar.

Samkvæmt nýjum upplýsingum hefur að minnsta kosti fimm konum verið nauðgað á hverjum degi í höfuðborg Indlands það sem af er ári. Alls hafði verið tilkynnt um 578 nauðganir þar sem af er ári 15. apríl. Á sama tíma í fyrra voru tilkynningarnar 563 talsins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert