Trump sendir Pútín hamingjuóskir

Trump hlakkar til að rækta sambandið við Pútín, en Pútín …
Trump hlakkar til að rækta sambandið við Pútín, en Pútín sór embættiseið í dag og verður við völd í Rússlandi að minnsta kosti næstu sex árin. AFP

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, óskaði Vla­dimir Pútín Rússlandsforseta til hamingju við upphaf fjórða kjörtímabil hans sem hófst formlega í dag þegar Pútín sór embættiseið sem for­seti Rúss­lands í at­höfn í Kreml. Þetta er fjórða kjör­tíma­bil for­set­ans og þar með fram­leng­ist næst­um tveggja ára­tuga valdatíð hans um sex ár í viðbót.

„Forsetinn óskar honum til hamingju og hlakkar til komandi tíma sem munu vonandi einkennast af farsælu sambandi við Rússland,“ sagði Sarah Sanders, fjölmiðlafulltrúi Hvíta hússins, á fundi með fjölmiðlafólki í dag.

Sanders undirstrikaði einnig mikilvægi tjáningarfrelsi og að bandarísk stjórnvöld séu þeirrar skoðunar að allir eigi rétt á að koma saman og láta rödd sína heyrast.  

Rúss­neski stjórn­ar­and­stæðing­ur­inn Al­ex­ei Navalny var hand­tek­inn á laugardag ásamt yfir 1.600 stuðnings­mönn­um sín­um sem mót­mæltu embættistöku Pútíns.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert