Ríkissaksóknari sakaður um ofbeldi

Eric Schneiderman, ríkissaksóknari í New York.
Eric Schneiderman, ríkissaksóknari í New York. AFP

Ríkissaksóknari New York, Eric Schneiderman, sagði af sér embætti í gær, aðeins nokkrum klukkustundum eftir að fjórar konur sökuðu hann um að hafa beitt þær ofbeldi í grein sem birtist í New Yorker. 

Schneiderman hefur verið ötull talsmaður #MeToo-hreyfingarinnar. Hann hefur einnig verið svarinn andstæðingur Donald Trump, forseta Bandaríkjanna.

„Undanfarnar klukkustundir hafa komið fram ásakanir á hendur mér sem ég mótmæli harðlega,“ sagði Schneiderman þegar hann greindi frá afsögn sinni. 

Hann segir að þrátt fyrir að þessar ásakanir tengist ekki starfi hans beint komi þær aftur á móti í veg fyrir að hann geti sinnt embætti sínu á þessum viðsjárverðu tímum. Því hafi hann ákveðið að segja af sér og muni hann láta af störfum 8. maí.

Áður hafði hann gefið út yfirlýsingu þar sem hann neitar því að hafa ráðist á nokkra manneskju og að hann hafi aldrei þröngvað manneskju til kynmaka. 

New Yorker hefur eftir konunum fjórum að í engu tilviki hafi þær verið samþykkar kynmökunum. Tvær þeirra koma fram undir nafni og saka þær Schneiderman um að hafa slegið þær ítrekað, einkum eftir að áfengis hafi verið neytt. Eins hafi hann beitt þær ofbeldi í rúminu og aldrei með þeirra samþykki. Báðar segjast þær hafa þurft að leita sér læknisaðstoðar eftir að hafa verið slegnar í andlitið og eyru. Eins hafi hann reynt að kyrkja þær.

Í febrúar höfðaði Schneiderman mál gegn The Weinstein Company fyrir að hafa ekki varið starfsfólk sitt fyrir kynferðislegri áreitni af hálfu Harvey Weinstein þrátt fyrir að starfsfólkið hafi ítrekað kvartað undan áreitninni við sína yfirmenn.

Hann var jafnframt beðinn af ríkisstjóra New York, Andrew Cuomo, um að fara yfir ákvörðun saksóknara á Manhattan frá árinu 2015 um að lögsækja ekki Weinstein vegna ásakana um kynferðislegt ofbeldi.

Grein New Yorker

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert