Átök milli Ísraels og Írans í Sýrlandi

Sýrlenska ríkisfréttastofan SANA greindi frá því að flugskeyti hafi verið …
Sýrlenska ríkisfréttastofan SANA greindi frá því að flugskeyti hafi verið skotin niður af loftvarnabyssum Sýrlandshers. AFP

Íranskar hersveitir gerðu árás í nótt á bækistöðvar Ísraelshers í Gólanhæðum á Sýrlandi. Alls var um 20 flugskeytum skotið. Jonathan Conricus, talsmaður Ísraelshers, fullyrðir að loftvarnakerfi hersins hafi ráðið við árásirnar.

Árásunum var svarað og segir Avigdor Liberman, varnarmálaráðherra Ísraels, að ísraelska hernum hafi tekist að skemma nær allar herstöðvar Írans í Sýrlandi. „Ef það rignir á okkur er von á stormi hjá þeim,“ sagði Liberman á blaðamannafundi í morgun og gaf í skyn að von væri á frekari árásum Ísraelshers á herstöðvar Írans.

Samkvæmt upplýsingum frá rússneska varnarmálaráðuneytinu skaut Ísraelsher 70 flugskeytum á herstöðvar Írans í Sýrlandi og notaði til þess 28 flugvélar. Að minnsta kosti 23 hermenn létu lífið í árásunum. 

Aðgerðirnar þykja þær umfangsmestu sem Ísraelsher hefur gripið til í mörg ár og kemur í kjölfar ákvörðunar Donalds Trumps Bandaríkjaforseta um að draga Bandaríkin út úr kjarnorkusamkomulagi við Íran.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert