Þýðingarmikið „meistarastykki“ slær í gegn

Óteljandi sögur má finna í bakgrunni myndbandsins.
Óteljandi sögur má finna í bakgrunni myndbandsins.

Nýjasta myndbandi tónlistamannsins Donalds Glover, sem einnig er þekktur undir listamannsnafninu Childish Gambino, er lýst sem meistarastykki. Myndbandið við lagið This Is America er tekið upp í vöruskemmu og útfært af mikilli nákvæmni og dýpt í söng, leik og dansi. Þar sem boðskapur bæði lagsins og myndbandsins er ekki augljós við fyrstu sýn hafa margar kenningar verið settar fram en flestir eru á því að í laginu sé listamaðurinn að gagnrýna byssueign og kynþáttafordóma sem og veruleika svartra almennt í Bandaríkjunum. Þá telja margir að hann sé einnig að gagnrýna þær kröfur sem samfélagið, m.a. tónlistarmenn eins og hann sjálfur, setur á svarta Bandaríkjamenn. Þeir eigi að vera kaldir og gera hvað sem er fyrir peninga.

Myndbandið er það vinsælasta á YouTube í augnablikinu og hefur það verið spilað tæplega 75 milljón sinnum frá því að það var fyrst birt þann 5. maí. Svo hratt bætist við áhorfendafjöldann að þessi tala verður líklega orðin úrelt þegar þessi frétt birtist.

Áhorfstölurnar má m.a. rekja til þess að svo margt er í gangi í myndbandinu að við hvert áhorf má koma auga á eitthvað nýtt. Áhorfendur sem og gagnrýnendur hafa lagst yfir myndbandið ramma fyrir ramma og hafa auga komið á fjölmargar tilvísanir til ákveðinna persóna sem og atburða.

Á meðan áhorfandinn horfir fyrst í stað eingöngu á söngvarann, dansandi með ýktum hreyfingum um skemmuna ber að ofan, er fjölmargt í gangi í bakgrunninum. Myndbandið segir því óteljandi sögur. „Danshreyfingar Childish Gambino dreifa athygli okkar allra frá brjálæðinu sem er að gerast í bakgrunni myndbandsins og það er nákvæmlega kjarni þess sem hann er að reyna að segja okkur,“ segir Twitter-notandi sem lagt hefur orð í belg í umræðuna um myndbandið. Sherrie Silver, danshöfundur myndbandsins, endurbirti þetta tíst á sinni Twitter-síðu sem mörgum finnst til marks um  það að  hún sé að taka undir þessa kenningu.

Donald Glover er þúsundþjalasmiður mikill. Hann er tónlistarmaður, leikari, handritshöfundur, leikstjóri og grínisti. Leikstjóri myndbandsins er Hiro Murai en hann leikstýrir einnig sjónvarpsþáttum Glovers, Atlanta, en þættirnir hafa m.a. hlotið Emmy-verðlaun.

Fréttir CBS, Guardian, Rolling Stone og Wired um myndbandið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert