Evrópuríki standi saman gegn refsiaðgerðum

Emmanuel Macron forseti Frakklands, Theresa May forsætisráðherra Bretlands og Angela …
Emmanuel Macron forseti Frakklands, Theresa May forsætisráðherra Bretlands og Angela Merkel kanslari Þýskalands. AFP

Leiðtogar Evrópuríkjanna sem eiga aðild að kjarnorkusamkomulagi við Íran reyna nú að beita öllum mögulegum diplómatískum leiðum til að bjarga samkomulaginu og koma í veg fyrir að Bandaríkin refsi ríkjum sem eiga í viðskiptum við Íran.

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, greindi frá ákvörðun sinni á þriðjudag að draga Bandaríkin út úr kjarnorkusamkomulaginu við Íran og grípa á ný til refsiaðgerða gagnvart ríkinu. Þá sagði hann einnig að refsiaðgerðum yrði beitt gegn ríkjum sem héldu áfram að eiga viðskipti við Íran. Ríkisstjórn Bandaríkjanna mun veita þeim ríkjum þriggja til sex mánaða frest til að hætta viðskiptunum.

BBC greinir frá því að leiðtogar Frakklands, Þýskalands, Rússlands og Bretlands, sem eiga aðild að samkomulaginu auk  Kína, hafa átt í nánum samskiptum síðustu daga vegna fyrirhugaðra refsiaðgerða. Þá hefur Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, rætt við Trump Bandaríkjaforseta. 

Frönsk yfirvöld hafa látið hæst í sér heyra og kynnti Bruno Le Marie, fjármálaráðherra Frakklands, tillögur Frakka sem byggjast að hluta til á reglugerð frá 1996 sem felur í sér að allar ákvarðanir um refsiaðgerðir verði hunsaðar innan Evrópu.

Le Marie segir að mikilvægast sé að Evrópuríkin standi saman og verji efnahagslegt fullveldi sitt en elti ekki Bandaríkin.

Mohammad Javad Zarif utanríkisráðherra Írans.
Mohammad Javad Zarif utanríkisráðherra Írans. AFP

Meðal franskra fyrirtækja sem refsiaðgerðirnar gætu haft áhrif á er Airbus flugvélaverksmiðjurnar sem gert hafa stóra samninga við Íran frá því að kjarnorkusamkomulagið við Íran tók gildi árið 2015.

Utanríkisráðherra Írans, Mohammad Javad Zarif, mun í dag fara til Kína og ræða við yfirvöld þar. Þaðan fer hann til Rússlands og loks er ferð hans heitið til Brussel á þriðjudag þar sem hann mun fyrirhugaðar refsiaðgerðir Bandaríkjanna við utanríkisráðherra Frakklands, Þýskalands og Bretlands.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert