Innan við helmingur mætti á kjörstað

Innan við helmingur kjósenda mættu á kjörstað í fyrstu þingkosningunum í Írak frá því stjórnvöld lýstu yfir sigri yfir vígasamtökunum Ríki íslams. Alls var kjörsókn 44,52% sem er það minnsta frá því fyrstu fjölflokka kosningarnar fóru fram í landinu árið 2005.

Talið er að fólk hafi setið heima til þess að sýna vantraust sitt á stjórnmálamönnum í landinu sem þykja mjög spilltir. Almenningur hefur bent á að litlar sem engar breytingar hafi orðið á frambjóðendum frá því Bandaríkin gerðu innrás inn í landið árið 2003. En margir af þeim sem mættu á kjörstað sögðust mæta til þess að reyna að ná fram breytingum á þinginu. 

Alls eru 24,5 milljónir á kjörskrá og hefur kjörsókn farið minnkandi allt frá árinu 2005. Það ár mættu aftur á móti 79% kjósenda og greiddu atkvæði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert