Allt á suðupunkti í Jerúsalem

Frá Gaza í morgun.
Frá Gaza í morgun. AFP

Írönsk yfirvöld gagnrýna Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, harðlega fyrir ákvörðun hans um að flytja sendiráð Bandaríkjanna frá Tel Aviv til Jerúsalem.

Mikill viðbúnaður er vegna flutnings sendiráðsins en í dag verður sendiráðið í Jerúsalem opnað. Mikil reiði er meðal almennings í Palestínu enda líta þeir á borgina sem sína höfuðborg. 

Mótmælendur á Gaza í morgun.
Mótmælendur á Gaza í morgun. AFP

Þegar er komið til óeirða á Gaza en fleiri hundruð Palestínumenn taka þátt í mótmælum þar vegna flutnings sendiráðsins. Búið er að stafla upp dekkjum við landamærin og stendur til að kveikja í þeim. Ísraelsher ætlar að tvöfalda viðbúnað sinn á landamærunum í dag en frá 30. mars hafa á sjötta tug Palestínumanna verið drepnir af ísraelskum hermönnum. Á laugardag lést fimmtán ára gamall drengur en hann var skotinn í höfuðið af ísraelskum hermanni á föstudag. 

AFP

Sendinefnd á vegum Hvíta hússins og háttsettir embættismenn í Ísrael munu mæta á opnunarhátíðina síðdegis í dag. 

Óttast er að mótmælin á Gaza verði mannskæð í dag þar sem ísraelskar leyniskyttur fylgjast grannt með því ef einhver reynir að laumast yfir landamærin. 

AFP

Í gær sendi leiðtogi Al-Qaeda, Ayman al-Zawahiri, frá sér skilaboð þar sem hann hvatti múslíma til þess að gera árásir á Bandaríkin.

Athöfnin í sendiráðinu hefst klukkan 16 að staðartíma, klukkan 13 að íslenskum tíma. Alls er von á 800 gestum í athöfnina en Trump verður ekki sjálfur á staðnum. Aftur á móti verður John Sullivan aðstoðarutanríkisráðherra og dóttir Trumps, Ivanka og eiginmaður hennar, Jared Kushner, viðstödd auk fjármálaráðherra Bandaríkjanna, Steven Mnuchin.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert