Blóðbað á Gaza

Að minnsta kosti 37 Palestínumenn hafa fallið á Gaza í morgun. Fjöldamótmæli eru við landamæragirðingarnar að Ísrael og hafa ísraelskar leyniskyttur skotið á mótmælendur með þessum afleiðingum. Tölurnar um mannfallið eru fengnar frá heilbrigðisráðuneytinu á Gaza. Um er að ræða mesta mannfall á einum degi í stríðinu á milli Ísraelsmanna og Palestínumanna frá árinu 2014. 

Meðal þeirra sem fallið hafa í morgun er fjórtán ára drengur sem ísraelskir hermenn skutu til bana er átök brutust út á fimm stöðum við landamæragirðingarnar. Mótmælendur köstuðu m.a. grjóti að girðingunum.

Tugþúsundir taka þátt í mótmælunum sem m.a. eru haldin í tilefni þess að í dag færa Bandaríkjamenn sendiráð sitt í Ísrael til Jerúsalem frá Tel Aviv.

Heilbrigðisráðuneytið á Gaza telur að um 900 Palestínumenn hafi særst og samband fréttamanna í Palestínu segja að átta fréttamenn séu í hópi særðra. 

Palestínumaður heldur á þjóðfána lands síns og umhverfis hann brenna ...
Palestínumaður heldur á þjóðfána lands síns og umhverfis hann brenna dekk skammt frá landamæragirðingunum að Ísrael. AFP

Ísraelski herinn segir að um 35 þúsund manns taki þátt í mótmælunum. Hann sakar Hamas-samtökin, sem fara með stjórn á Gaza, um að leiða mótmælin sem hann kallar hryðjuverkaaðgerð dulbúna sem fjöldamótmæli.

Stjórnvöld í Palestínu, sem eru með höfuðstöðvar sínar í Ramallah á Vesturbakkanum, saka hins vegar Ísraelsmenn að fremja „hræðilegt fjöldamorð“.

Mótmælendur köstuðu grjóti að girðingunum og veltu að þeim dekkjum sem kveikt hafði verið í. Þá fóru þeir að girðingunum að reyndu að skemma þær og komast í gegnum þær. Við þær aðgerðir hófu leyniskyttur skothríð.

Munu ekki gefast upp

Bilal Fasayfes er meðal þeirra sem taka þátt í mótmælunum. Hann fór að landamærunum í rútu í morgun ásamt eiginkonu sinni og tveimur börnum. „Ef helmingur fólksins lætur lífið þá skiptir það okkur ekki máli,“ sagði hann við fréttamann AFP. „Við munum halda áfram [að mótmæla] svo að hinn helmingurinn geti lifað með sæmd.“

Ísraelskar herþotur gerðu í dag árás á herstöðvar Hamas-samtakanna skammt frá landamærunum. Ísraelski herinn segir það hafa verið andsvar við árásum Palestínumanna. 

Fjöldamótmælin hafa staðið í sex vikur og fyrir utan að mótmæla færslu sendiráðsins er þess krafist að Palestínumenn sem þurftu að flýja heimili sín í kringum stofnun Ísraelsríkis árið 1948 fái að snúa aftur til síns heima en hús þeirra eru nú innan landamæra Ísraels.

Bandaríska sendiráðið í Ísrael verður opnað formlega klukkan 13 að íslenskum tíma. Hér að neðan má fylgjast með beinni útsendingu CNN frá vígsluathöfninni.

Palestínumenn sem tóku þátt í mótmælunum leita skjóls er Ísraelsher ...
Palestínumenn sem tóku þátt í mótmælunum leita skjóls er Ísraelsher hóf að beita táragasi á mannfjöldann á Gaza. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Sumarbústaðalóðir til sölu í Vaðnesi
Til sölu fallegar sumarhúsalóðir með aðgangi að heitu og köldu vatni í vinsælu s...
RAFVIRKI
ALHLIÐA RAFLAGNIR EKKERT VERKEFNI ER OF SMÁTT Haukur Emilsson Simi 853 1199...
Mjög góður Runó Megane
Runó Mjög góður Runó til sölu. Bíllinn er mjög vel og lítið ekinn eða 162.000 k...