Netanyahu: Við erum komin til að vera

Bandaríski sendiherrann David Friedman (t.v.) klappar fyrir Jared Kushner, tengdasyni …
Bandaríski sendiherrann David Friedman (t.v.) klappar fyrir Jared Kushner, tengdasyni Donalds Trump, við opnun sendiráðs Bandaríkjanna í Jerúsalem í dag. AFP

Jean-Yves Le Drian, utanríkisráðherra Frakklands, hvetur Ísraelsmenn til að sýna ábyrgð og koma í veg fyrir frekari átök. Að minnsta kosti 43 Palestínumenn hafa fallið í mótmælum við landamærin að Ísrael í dag. Leyniskyttur Ísraelshers hafa skotið á mótmælendur sem hafa kastað grjóti, kveikt í dekkjum og reynt að eyðileggja girðingarnar. Tugþúsundir Palestínumanna hafa í dag mótmælt opnun bandaríska sendiráðsins í Jerúsalem. 

„Frakkar biðja ísraelsk stjórnvöld enn og aftur að gæta varúðar og hófsemi við beitingu valds,“ sagði Le Drian í yfirlýsingu. Dagurinn í dag er sá blóðugasti í átökunum milli Ísraelsmanna og Palestínumanna frá árinu 2014.

Mannréttindasamtökin Amnesty International segja blóðbaðið „andstyggilegt brot“ á mannréttindum. „Við höfum orðið vitni að andstyggilegum brotum á alþjóðalögum og mannréttindum á Gaza. Þetta verður að stöðva þegar í stað,“ sagði í yfirlýsingu samtakanna á Twitter í dag. 

Að minnsta kosti 42 Palestínumenn hafa fallið við landamærin að …
Að minnsta kosti 42 Palestínumenn hafa fallið við landamærin að Ísrael í dag. AFP

Mikil hátíðardagskrá fór fram í Jerúsalem í dag er bandaríska sendiráðið þar var opnað. Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, var ekki viðstaddur en í yfirlýsingu ítrekaði hann þann vilja bandarískra stjórnvalda að friður komist á í Mið-Austurlöndum en minnist ekki einu orði á blóðbaðið á Gaza sem stóð yfir á sama tíma.

Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði á Twitter í morgun að í dag væri stór dagur fyrir Ísrael. Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, sagði að Trump hefði ritað nafn sitt í sögubækurnar með því að viðurkenna Jerúsalem sem höfuðborg Ísraels og með því að opna sendiráð Bandaríkjanna þar í borg. „Við erum í Jerúsalem og við erum komin til að vera,“ sagði Netanyahu í ræðu sem hann hélt við opnun sendiráðsins. 

Ísraelskar herþotur gerðu í dag árásir á fimm skotmörk á Gaza sem þau segja tengjast Hamas-samtökunum, sem fara með stjórn á Gaza. „Orrustuþota gerði árás á fimm hryðjuverkaskotmörk í hernaðarlegum þjálfunarbúðum sem tilheyra hryðjuverkasamtökunum Hamas á norðanverðu Gaza,“ sagði í yfirlýsingu hersins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert