Taka höndum saman gegn kynferðislegri áreitni

Frá Tókíó, höfuðborg Japan.
Frá Tókíó, höfuðborg Japan. AFP

Konur sem starfa á fjölmiðlum í Japan greindu frá því í dag að þær væru að taka höndum saman til þess að berjast gegn kynferðislegri áreitni innan fjölmiðlafyrirtækja. Talið er að kynferðisleg áreitni sé útbreitt í landinu samkvæmt frétt AFP en #MeToo byltingin hefur enn sem komið er ekki náð mikilli fótfestu þar.

Fram kemur í fréttinni að samtals hafi 86 fjölmiðlakonur hist og stofnað samtökin WiMN til þess að varpa ljósi á kynferðislega áreitni. Haft er eftir talsmanni samtakanna, Yoshiko Hayashi, að margar konur í blaðamannastétt ættu erfitt með að láta í sér heyra um þetta af skömm og ótta við að það skemmdi fyrir þeim.

Kynferðisleg áreitni í garð kvenna í fjölmiðlun var til umfjöllunar nýverið í fjölmiðlum í Japan eftir að fjármálaráðuneyti landsins viðurkenndi að háttsettur embættismaður þess hefði áreitt kvenkyns fréttamann en fram kemur í fréttinni að talið sé að málið sé aðeins toppurinn á ísjakanum. Fréttamaðurinn greindi frá málinu og þvertók fyrir að þegja yfir því.

Hayashi segir málið hafa verið öðrum konum í blaðamannasétt hvatning. Kominn væri tími til þess að stöðva kynferðilega áreitni í eitt skipti fyrir öll.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert