Ákærður fyrir barnaklám í stað gagnaleka

Fyrrverandi forritari hjá bandarísku leyniþjónustunni CIA liggur undir grun um …
Fyrrverandi forritari hjá bandarísku leyniþjónustunni CIA liggur undir grun um að hafa lekið gögnum frá CIA til Wikileaks. AFP

Fyrrverandi forritari hjá bandarísku leyniþjónustunni CIA liggur undir grun um að hafa lekið gögnum frá CIA til Wikileaks á síðasta ári. Bandarískir fjölmiðlar segja húsleit hafa verið gerða á heimili mannsins Joshua Schulte, vegna málsins og að hann hafi að því loknu verið ákærður fyrir að hafa fórum sér 10.000 myndir af barnaklámi.

BBC segir Schulte neita ákærunum og að hann sé enn grunaður um að hafa lekið gögnum CIA til Wikileaks, en þúsundir skjala sem fjölluðu um þær aðferðir sem CIA notaði til netnjósna voru birt á uppljóstrunarsíðunni í mars á síðasta ári.

Er Schulte sagður hafa þróað spilliforrit fyrir CIA yfir sex ára tímabil sem var notað hafi verið til að komast inn í tölvur meintra hryðjuverkamanna og annarra sem lágu undir grun. Schulte hætti hjá CIA 2016 og fór að vinna í einkageiranum.

Skjölin sem birt voru á Wikileaks í mars í fyrra greindu m.a. frá því hvernig CIA gæti tekið yfir iphone síma einstaklinga og hvernig stofnunin gæti gert snjallsjónvörp að eftirlitsbúnaði. Er lekinn talin sá stærsti á trúnaðargögnum frá leyniþjónustunni frá upphafi.

Rannsókn á lekanum var hafinn strax eftir að gögnin rötuðu á netið og segja bandarískir fjölmiðlar húsleit hafa verið gerð á heimili Schulte í New York skömmu síðar. Er alríkislögreglan sögð hafa grunað hann um að hafa deilt upplýsingum um varnarmál landsins og að hald hafi verið lagt á gögn frá CIA og bandarísku þjóðaröryggisstofnuninni NSA, sem og raftæki á borð við tölvu og spjaldtölvu að því er New York Times greinir frá.

Schulte var hins vegar aldrei ákærður fyrir lekan, heldur var hann ákærður sex mánuðum síðar fyrir vörslu barnakláms. Er Schulte sagður hafa vistað myndirnar á netþjóni sem hann bjó til árið 2009 er hann var í háskóla.

Hann er nú í gæsluvarðhaldi á Manhattan eftir að hafa brotið gegn skilmálum um vera laus gegn tryggingu. Hafa lögfræðingar Schulte fjölskyldunnar ítrekað krafist þess að hann verði annað hvort ákærður eða hreinsaður af ákærum um gagnalekann. Saksóknarar segja rannsókn málsins hins vegar enn vera í fullum gangi og að Schulte sé meðal grunaðra í því máli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert