Hellti sér yfir Trump

Bandaríski kvikmyndagerðarmaðurinn Spike Lee gagnrýndi forseta Bandaríkjanna, Donald Trump, harðlega á frumsýningu kvikmyndar Lee,  BlacKkKlansman, á kvikmyndahátíðinni í Cannes í gær.

Lee segir að með því að neita að fordæma mannskæðar árásir hvítra þjóðernissinna í Charlottesville í ágúst, hafi Trump náð lágpunkti sínum í embætti forseta.

Spike Lee sagði að skíthælnum (Lee notaði orðið motherfucker) hafi verið gefið möguleiki á að tala um ást í stað haturs og að fordæma rasistana en hann hafi ekki nýtt sér það tækifæri. 

Í kvikmyndinni segir Lee sögu Ron Stallworth, fyrsta svarta Bandaríkjamanninum sem tókst að smygla sér inn í raðir Ku Klux Klan undir lok áttunda áratugarins er hann var lögreglumaður í Colarado. John David Washington, sonur Denzel Washington, fer með hlutverk Stallworth sem rannsakar starfsemi Klan að mestu í gegnum síma með aðstoð vinnufélaga, sem er gyðingur. Adam Driver fer með hlutverk vinnufélagans.  Í lokaatriði myndarinnar birtast myndir frá göngu hvítra þjóðernissinna í Charlottesville, Virginia í ágúst. Tvítugur öfgasinni ók niður rúmlega þrítuga konu, Heather Heyer, sem mótmælti göngu þjóðernissinnanna auk þess sem nokkrir særðust í árásinni. Trump sakaði báða aðila um að bera ábyrgð á blóðbaðinu. 

Lee tileinkar minningu Heyer kvikmyndina og verður hún tekin til almennra sýninga ári eftir mótmælin. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert