Hrófla ekki við evrunni

Luigi Di Maio, leiðtogi Fimm stjörnu hreyfingarinnar, og Matteo Salvini, …
Luigi Di Maio, leiðtogi Fimm stjörnu hreyfingarinnar, og Matteo Salvini, leiðtogi Bandalagsins. AFP

Fyrirhuguð samsteypustjórn Ítalíu hugðist beita sér fyrir því að landið myndi yfirgefa evrusvæðið, viðræður færu fram um endurskoðun á sáttmálum Evrópusambandsins og að afskrifaðir yrðu 250 milljarðar af skuldum ítalska ríkisins.

Þetta var á meðal þess sem kom fram í drögum að stjórnarsáttmála Bandalagsins, kosningabandalags hægrimanna, og Fimm stjörnu hreyfingarinnar en framboðin tvö fengu flest og næstflest atkvæði í kosningunum.

Eftir að fjölmiðlar greindu frá drögunum, sem kallaði á neikvæð viðbrögð meðal annars frá fjármálamörkuðum, sendu framboðin út yfirlýsingu um að gerðar hefðu verið breytingar á drögunum og ekki yrði hróflað við evrunni á Ítalíu.

Samanlagt hafa framboðin 492 þingmenn í neðri deild ítalska þingsins af 630 og 249 sæti af 321 í öldungadeildinni. Þingkosningar fóru fram í mars og hefur síðan verið reynt að koma á laggirnar starfhæfri samsteypustjórn.

Framboðin vildu í upphaflegu drögunum að gerðar yrðu breytingar á sáttmálum Evrópusambandsins meðal annars í þeim tilgangi að opnað yrði á þann möguleika að ríki gætu sagt skilið við evrusvæðið og endurheimtað þannig peningalegt fullveldi. Þessu hefur hins vegar verið breytt, sem fyrr segir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert